Hoppa yfir valmynd
31. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Ár liðið frá voðaverkunum í Bucha

Frá minningarathöfn sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra sóttu í Bucha fyrr í mánuðinum. - myndForsætisráðuneytið

Fórnarlamba voðaverka rússneska hersins í úkraínska bænum Bucha var minnst á ráðstefnu sem haldin var í Kænugarði í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ávarpaði ráðstefnuna.

Í dag er ár liðið frá því að rússneski herinn hörfaði frá Bucha, sem er í útjaðri úkraínsku höfuðborgarinnar. Illvirkin blöstu þá við umheiminum, fjöldamorð á almennum borgurum og gríðarleg eyðilegging. Í heimsókn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Þórdísar Kolbrúnar til Úkraínu 14. mars sl. skoðuðu ráðherrarnir ummerki í Bucha og Borodianka þar sem stríðsglæpir voru framdir.

Ábyrgðarskylda vegna voðaverka Rússlands var meginþema ráðstefnunnar í dag og hana sóttu leiðtogar og ráðherrar fjölmargra ríkja. Stuðningur við Úkraínu var ítrekaður og áhersla lögð á að alþjóðasamfélagið haldi áfram að vinna að því að draga þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á alþjóðaglæpum í Úkraínu.

„Rússland hefur kerfisbundið ráðist á borgaralega innviði, skóla, sjúkrastofnanir, íbúðabyggingar og almenna borgara, þeirra á meðal börn“ sagði Þórdís Kolbrún í myndbandsávarpi sínu. „Nauðsynlegt er að skrásetja glæpi Rússlands og það tjón sem af innrásinni hefur hlotist til að réttlætinu sé fullnægt fyrir úkraínsku þjóðina. Í formennsku Íslands í Evrópuráðinu hefur verið lögð áhersla á ábyrgðaskyldu vegna Úkraínu og vonir mínar standa til þess að Evrópuráðið leggi sitt af mörkum með stofnsetningu tjónaskrár.“

Ísland tók undir sameiginlega yfirlýsingu ráðstefnunnar.

Þórdís Kolbrún, sem forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, gaf jafnframt út yfirlýsingu í dag af þessu sama tilefni.

  • Ár liðið frá voðaverkunum í Bucha - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta