Ríkara ákvörðunarvald einstaklinga yfir kynfrumum og fósturvísum sínum með nýju frumvarpi
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun nr. 55/1999. Með frumvarpinu verður virtur vilji einstaklinga eða pars, sem hefur geymt kynfrumur eða fósturvísa í tæknifrjóvgunarferli, til að nýta þau þótt áður hafi komið til sambúðarslita eða annar aðilinn látist. Afnumið verður ákvæði gildandi laga um að kynfrumum eða fósturvísum skuli skilyrðislaust eytt við þessar aðstæður.
Með breytingunni er ekki verið að heimila gjöf fósturvísa til notkunar þriðja aðila, heldur á frumvarpið einungis við pör sem hafa staðið saman að tæknifrjóvgunarferli. Réttur einstaklings til að heimila notkun kynfrumna eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit verður bundinn við að viðkomandi hafi verið í sambúð við þann sem mun ganga með barnið. Vilji beggja aðila þessa efnis þarf að vera skýr og fyrirliggjandi. Sama máli gegnir um notkun fósturvísis.
Tæknifrjóvgunarmeðferð er almennt tímafrekt og kostnaðarsamt ferli sem einnig getur verið líkamlega og andlega erfitt. Með geymslu kynfrumna og fósturvísa er fólki m.a. gert mögulegt að eignast barn eftir sjúkdóma eða meðferð sem hefur áhrif á frjósemi. Hvoru tveggja getur einnig dregið úr þörf fyrir notkun gjafakynfrumna og stuðlað að því að börn þegar fædd deili erfðaefni með systkinum sínum. Nýting einstaklinga á kynfrumum eða fósturvísum í geymslu gæti enn fremur verið eina tækifærið til barneigna þar sem viðkomandi hefur mögulega ekki aðrar nothæfar kynfrumur en þær sem þegar hafa verið lagðar til í tæknifrjóvgunarferlinu. Áformuð lagabreyting styrkir þannig það meginmarkmið tæknifrjóvgunar að hjálpa fólki, eftir atvikum barnlausu, að eignast barn.
Ólík réttarstaða eftir fjölskylduformi verður jafnari en áður
Áformuð lagabreyting dregur m.a. úr mun á réttarstöðu fólks eftir fjölskylduformi. Samkvæmt gildandi lögum getur t.d. einstæð kona nýtt fósturvísa sem verða til í tæknifrjóvgunarferli. Kona sem verið hefur í parsambandi getur það hins vegar ekki hafi áður komið til skilnaðar, sambúðarslita eða andláts maka, þrátt fyrir að vilji fyrrverandi maka til þess liggi fyrir.
Frumvarpið var unnið í góðri samvinnu við dómsmálaráðuneytið, enda kallaði það á vandlega skoðun á barnalögum svo skýrt liggi fyrir hverjir teljast foreldrar barns sem verður til við þær aðstæður sem frumvarpið heimilar. Gildandi reglur um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun verða óbreyttar. Í þeim felst m.a. að par sem þegið hefur gjafakynfrumur verða foreldrar barns þegar það fæðist. Á sama hátt eru þau sem sameiginlega tóku ákvörðun um að geyma kynfrumur eða fósturvísi sem eru foreldrar barns sem verður til við þær aðstæður sem frumvarpið fjallar um.