Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2023 Forsætisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherrar heimsóttu Neskaupstað og funduðu með viðbragðsaðilum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra heimsóttu Neskaupstað í dag ásamt fulltrúum Ofanflóðasjóðs og almannavarna Ríkislögreglustjóra.

Ráðherrarnir kynntu sér ummerki snjóflóðanna sem hafa verið að falla undanfarna viku en ljóst má vera að tjón er umtalsvert. Í heild hafa um 850 manns þurft að yfirgefa heimili sín á Austurlandi í vikunni og um 150 manns þurftu að yfirgefa heimili sín oftar en einu sinni. Þetta eru næst umfangsmestu rýmingaraðgerðir Íslandssögunnar.

Þegar mest var voru um 300 björgunaraðilar staddir á svæðinu. Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar í Neskaupstað, á Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Rauði krossinn mun áfram veita sálrænan stuðning á svæðinu í samstarfi við almannavarnir, Múlaþing og Fjarðabyggð og samráðshóp áfallahjálpar. 

Ráðherrarnir funduðu með viðbragðsaðilum og fulltrúum bæjarstjórnar og fóru yfir framhaldið, bæði hvað varðar ofanflóðavarnir og aðrar aðgerðir á svæðinu. Þá hafa fulltrúar Náttúruhamfaratryggingar verið á svæðinu undanfarna daga til að meta tjónið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta