Nám í alþjóðlegum menntaskóla í Noregi
Mennta- og barnamálaráðuneytið veitir árlega einum íslenskum nemanda styrk til náms við Alþjóðlega menntaskólann (e. Red Cross Nordic United World College) í Flekke í Noregi. Um er að ræða einstakt tækifæri á námi til stúdentsprófs í alþjóðlegu umhverfi.
Skólinn er hluti af alþjóðlegu skólasamtökunum United World Colleges (UWC), sem reka 18 skóla í 15 löndum. UWC er í fararbroddi alþjóðlegrar menntunar til stúdentsprófs, með það að markmiði að menntun ungmenna með ólíkan menningarbakgrunn auki skilning og samstarf milli þjóða og menningarheima.
Nám við skólann í Noregi tekur tvö ár og lýkur því með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi (e. International Baccalaureat Diploma – IB). Kennsla fer fram á ensku.
Í skólastarfinu er lögð sérstök áhersla á umhverfis-, samfélags- og mannréttindamál og önnur mikilvæg viðfangsefni samtímans. Skólinn á í samstarfi við Rauða krossinn og Norðurlöndin, sem eiga aðild að stofnun hans. Auglýst er eftir umsækjendum um skólavist á hverju ári. Þeir skulu hafa lokið sem svarar einu ári í framhaldsskóla, hafa gott vald á ensku og vera á aldrinum 16–18 ára. Styrkþegi þarf sjálfur að greiða fargjöld sín.
Fylla þarf út tvö umsóknareyðublöð, eitt á íslensku og annað á ensku og einnig skila inn afritum af prófskírteinum og meðmælum.
- Umsóknir berist til mennta- og barnamálaráðuneytisins gegnum netfangið [email protected]
- Nánari upplýsingar veitir Anna María Gunnarsdóttir, anna.m.gunnarsdottir hjá mrn.is
- Hér má nálgast umsóknareyðublöðin sem fylla þarf út, það íslenska og það enska
- Upplýsingar um skólann má nálgast á vefnum uwcrcn.no og á upplýsingasíðu ráðuneytisins
Umsóknarfrestur er til miðvikudagsins 10. maí 2023.