Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Reglugerð um menntun lækna, lækningaleyfi og sérfræðileyfi

Til umsagnar: Reglugerð um menntun lækna, lækningaleyfi og sérfræðileyfi - myndHeilbrigðisráðuneytið /ME

Birt hafa verið til umsagnar drög að nýrri reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Með reglugerðinni er m.a. kveðið ýtarlega á um um faglega umgjörð sérnáms í læknisfræði sem fer fram hér á landi, til samræmis við öra þróun námsins og aukið umfang þess frá því að núgildandi reglugerð nr. 467/2015 var sett árið 2015.

Í maí 2020 skilaði starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skýrslu um framhaldsmenntun lækna og framtíðarmönnun læknisstarfa í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Í skýrslu hópsins er m.a. bent á að ákvarðanir um hvaða sérnám stendur læknum til boða hér á landi og í hve miklum mæli, hafi grundvallarþýðingu fyrir skipulag og mannafla íslenska heilbrigðiskerfisins næstu áratugina. Mikilvægt sé að gæði námsins standist erlendan samanburð og æskilegt að það hljóti alþjóðlega viðurkenningu svo stuðla megi að formlegu samstarfi við erlendar stofnanir um námið. Í skýrslu starfshópsins eru settar fram tillögur um aðgerðir m.a. til að styrkja umgjörð og faglegar kröfur til sérnáms lækna hér á landi. Í framhaldi af vinnu starfshópsins var ráðist í endurskoðun gildandi reglugerðar nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldu lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Ný reglugerð – helstu breytingar

Í ljósi þess hve miklar breytingar eru lagðar til á gildandi fyrirkomulagi var niðurstaða hópsins sem vann að endurskoðuninni að leggja til nýja heildarreglugerð sem nú hefur verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Gerðar verða skýrar kröfur um að allt sérnám í læknisfræði hér á landi verði alfarið samkvæmt formlegri marklýsingu og fari fram á heilbrigðisstofnunum sem hlotið hafa viðurkenningu sem kennslustofnanir sérnáms. Metið verði árlega hvort hæfni- og færniviðmiðum marklýsingar sé náð og kennsluráð sem skipuð verða í öllum sérgreinum staðfesta loks með vottorði hvort sérnámslæknir hafi lokið náminu á fullnægjandi hátt. Námslokavottorð verður forsenda umsóknar til embættis landlæknis um sérfræðileyfi.

Nánar má lesa um breytingarnar sem felast í drögum að nýrri reglugerð í samráðsgátt stjórnvalda og þar eru reglugerðardrögin jafnframt birt til umsagnar. Umsagnarfrestur er til 25. apríl næstkomandi.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta