Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2023

Mál nr. 77/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 77/2023

Fimmtudaginn 13. apríl 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. febrúar 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2022, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2022, var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur synjað með vísan til 18. og 19. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. desember 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. febrúar 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2023, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst úrskurðarnefndinni 22. febrúar 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að kæran varði mál sem eigi rætur að rekja til sama máls og hafi verið endurupptekið sem mál úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 167/2021 og vísað sé til gagna í því máli varðandi sönnun fyrir tekjum og svo framvegis. Hljóð og mynd virðist ekki fara saman í meðferð Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi umsókn kæranda verið hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili næði ekki lágmarksbótarétti. Það sé kolrangt og margsannað að svo sé. Í umbeðnum rökstuðningi með ákvörðuninni, dags. 1. desember 2022, sé þó vísað til þess sem ákvörðunin sé væntanlega í raun byggð á, þó að skautað sé fram hjá því í sjálfri ákvörðuninni, þ.e. að kærandi hafi ekki staðið skil á reiknuðu endurgjaldi sem hann hafi hins vegar svo sannarlega gefið upp og gert skilmerkilega grein fyrir á skattframtali og í skilagreinum. Kærandi hafi hins vegar verið með greiðslusamkomulag við Skattinn í gangi á þessum tíma og óumdeilt í málinu að hann hafi verið eftir á með greiðslu tryggingagjalds þar sem hans greiðslur til Skattsins hafi farið inn á eldri skuldir samkvæmt samkomulagi.

Að mati kæranda gangi sú lögskýring, þ.e. að það sé ekki nægjanlegt að vera búinn að gera grein fyrir tryggingagjaldinu og þar með hafi Skatturinn eignast kröfu á hendur kæranda á grundvelli launa hans, ekki upp í ljósi stjórnarskrársvarins rétts einstaklinga til atvinnuleysisbóta. Það gangi því ekki að skýra lagagreinina eftir orðanna hljóðan heldur verði að horfa til sambærilegra sjónarmiða og leiði til þess að skatturinn eignist kröfu á hendur aðilum sem móttaki arð á grundvelli ákvörðunar um arðsúthlutun og menn komist ekki hjá greiðslu þar með því að benda á það að þeir hafi ekki enn fengið krónu greidda. Þar sé einfaldlega nægjanlegt að þeir hafi eignast kröfu á félagið og þar með sé það nægjanlegur grundvöllur skattlagningar. Sama gildi að sjálfsögðu um kröfu Skattsins á grundvelli skilagreina kæranda og það gangi ekki að skerða stjórnarskrárvarinn rétt til atvinnuleysisbóta leigubílstjóra í því ástandi sem hér hafi ríkt í Covid faraldri á grundvelli þess að hann hafi ekki þá þegar verið búinn að greiða kröfu Skattsins vegna tryggingagjaldsins, enda sé það ekki krafa sem lögð sé á launþega og því augljós ósanngjörn mismunun einstaklinga á stjórnarskrárvörðum réttindum.

Vinnumálastofnun virðist hins vegar taka ákvörðunina á þeim forsendum að kærandi eigi ekki réttinn og skauti því hjá þessum rökstuðningi sem þó sé aðeins komið inn á í rökstuðningsbréfi. Kærandi krefjist þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. nóvember 2022 um synjun atvinnuleysisbóta verði ógilt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 31. mars 2020. Á umsókninni hafi kærandi tilgreint að hann væri sjálfstætt starfandi en hefði hætt starfsemi sinni. Með erindi, dags. 25. september 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli hans næði vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar ekki því lágmarki sem kveðið væri á um í lögum um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið boðið að skila frekari gögnum, ella væri fyrirséð að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta yrði synjað.

Með erindi, dags. 25. júní 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans væri synjað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili næði ekki lágmarksbótarétti, sbr. 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar um synjun á greiðslu atvinnuleysisbóta en þeirri beiðni hafi verið hafnað af Vinnumálastofnun þann 17. febrúar 2021.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2021, um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 30. mars 2021. Úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð í máli kæranda þann 26. ágúst 2021 þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið staðfest. Með úrskurði, dags. 20. október 2022, hafi Vinnumálastofnun hins vegar verið gert að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. Í kjölfarið hafi Vinnumálastofnun tekið umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Með erindi, dags. 7. nóvember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans væri hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar næði ekki lágmarksbótarétti. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 18. og 19. gr., sbr. b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 8. nóvember 2022 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar. Í rökstuðningsbeiðni sinni hafi kærandi greint frá því að hann væri langt fyrir ofan þau mörk sem þyrfti til að vinna sér inn bótarétt samkvæmt IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi starfaði sem leigubílstjóri og frá og með september 2019 og út febrúar 2020 hafi hann mánaðarlega reiknað sér laun að fjárhæð 372.000 kr. Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafi kærandi hins vegar orðið fyrir nær algjöru tekjufalli. Kærandi hafi talið ljóst að hann hefði reiknað sér endurgjald á ávinnslutímabilinu sem færi langt yfir 25% lágmarksviðmið laga um atvinnuleysistryggingar til að uppfylla að minnsta kosti skilyrði til hlutfallsbóta. Í því samhengi hafi kærandi vísað til viðmiðunarfjárhæða Skattsins. Óumdeilt væri hins vegar að kærandi væri eftir á með greiðslur, en hann væri með greiðslusamkomulag við Skattinn. Kærandi hefði þó skilað inn skattframtölum og skilagreinum í samræmi við uppgefin laun og því væri klár sú skylda hans til að greiða skatt af þeim. Sú skylda ætti ein og sér að vera fullnægjandi til að uppfylla skilyrði 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hefði hann þannig upplýst skattyfirvöld um launagreiðslur, tekið á sig skuldbindingu um greiðslu þeirra skatta og gjalda og meira að segja samið við skattyfirvöld um greiðsludreifingu þeirra skuldbindinga sinna. Í rökstuðningsbeiðni hafi kærandi greint frá því að hann teldi ákvörðun í máli hans byggða á afar þröngri lögskýringu orðsins ,,greitt“ í 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en líta þyrfti til þess að um væri að ræða rétt sem tryggður væri meðal annars í 76. gr. stjórnarskrár. Rökstuðningur hafi verið birtur kæranda með erindi, dags. 1. desember 2022.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Fyrir liggi að kærandi hafi starfað sem sjálfstætt starfandi leigubílstjóri. Samkvæmt b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sjálfstætt starfandi einstaklingur hver sá sem starfi við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Í 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í h-lið 18. gr. sé kveðið á um það skilyrði að viðkomandi hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Um útreikning bótaréttar þeirra sem starfi sem sjálfstætt starfandi eða hjá eigin fyrirtækjum fari eftir 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1., 2. og 3. mgr. 19. gr. laganna segi orðrétt:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr, í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi einu sinni á ári sem er að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði á síðasta tekjuári áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi hafi reiknað sér vegna vinnu sinnar, að því gefnu að af þeim launum hafi veið greiddur mánaðarlegur staðgreiðsluskattur og tryggingagjald. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra og tryggingagjald skemur en 12 mánuði en þó lengur en þrjá mánuði teljist tryggður hlutfallslega, sbr. 2. mgr. 19. gr. Hið sama eigi við um sjálfstætt starfandi einstakling sem hafi reiknað sér endurgjald sem ekki nái lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra, sbr. 3. mgr. sömu greinar.

Við mat á tryggingahlutfalli kæranda hafi verið horft til síðustu 12 mánaða frá því að hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi greint Vinnumálastofnun og úrskurðarnefndinni frá því að á tímabilinu september 2019 til febrúar 2020 hafi hann reiknað sér endurgjald að fjárhæð 372.000 kr. Kærandi vísi til þess að viðmiðunarfjárhæð Skattsins um reiknað endurgjald hafi verið 428.000 kr. árið 2019 og 446.000 kr. vegna ársins 2020. Því sé ljóst að reiknað endurgjald hans á ávinnslutímabili fari langt fram úr 25% lágmarksviðmiði laga um atvinnuleysistryggingar til að uppfylla skilyrði til að minnsta kosti hlutfallsbóta. Kærandi vísi til þess að viðmiðunarfjárhæðir Skattsins um reiknað endurgjald hafi verið 428.000 kr. árið 2019 og 446.000 kr. vegna ársins 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum liggi hins vegar fyrir að kærandi hafi hvorki greitt tilskilið tryggingagjald né staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi á ávinnslutímabilinu. Aðeins hafi verið greidd tilskilin gjöld og skattar af reiknuðu endurgjaldi vegna september og október 2019, auk að hluta í janúar 2020. Kærandi hafi greint frá því að hann sé með greiðslusamkomulag við Skattinn vegna umræddra skattskulda.

Lög um atvinnuleysistryggingar séu skýr að því leyti að sjálfsætt starfandi einstaklingur sé aðeins tryggður hafi hann staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi, sbr. h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna. Þá beri Vinnumálastofnun skylda samkvæmt lögunum að líta aðeins til reiknaðs endurgjalds sem greiddur hafi verið staðgreiðsluskattur af og tryggingagjald þegar bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklinga sé reiknaður, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Að auki sé sérstaklega áréttað í athugasemdum um 18. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar að gert sé að skilyrði að sjálfstætt starfandi einstaklingar hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi við stöðvun rekstrar. Með vísan til framangreinds sé ljóst að það sé fortakslaust skilyrði greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklings að viðkomandi hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi.

Máli sínu til stuðnings vísi Vinnumálastofnun jafnframt til þess að í 2. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega að finna heimild til handa Vinnumálastofnun að veita undanþágu frá skilyrði h-liðar 1. mgr. 18. gr. þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar en greiði síðan þessi gjöld aftur í tímann. Kærandi hafi hins vegar aðeins staðið í skilum á reiknuðu endurgjaldi af tveimur mánuðum á ávinnslutímabilinu.

Með vísan til h-liðar 1. mgr. 18. gr., 19. gr., b-liðar 3. gr. og sömuleiðis frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar sé ljóst að sjálfsætt starfandi einstaklingur teljist aðeins tryggður hafi hann staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi. Í ljósi þess að aðeins hafi verið greidd tilskilin gjöld og skattar af reiknuðu endurgjaldi vegna september og október 2019, auk að hluta í janúar 2020, uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 19. gr. laganna um lágmarksbótarétt, þ.e. skil kæranda á opinberum gjöldum af reiknuðu endurgjaldi uppfylli ekki þriggja mánaða lágmarkið sem áskilið sé í 2. mgr. 19. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 7. nóvember 2022, um að synja kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta. Sú niðurstaða leiði af b-lið 3. gr., h-lið 1. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2022, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 18. og 19. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Óumdeilt er að kærandi var sjálfstætt starfandi áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Eitt af þeim skilyrðum er samkvæmt h-lið 1. mgr. að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágu frá h-lið 1. mgr. þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar en greiðir síðan þessi gjöld aftur í tímann. Við ákvörðun á tryggingahlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings sé þó einungis heimilt að miða að hámarki við þrjá mánuði af þeim tíma er vanskilin hafi átt við um.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 54/2006 telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir svo:

„Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabilinu, þ.e. fjölda mánaða sem unnir eru, verður miðað við skrár skattyfirvalda en eitt af skilyrðum þess að umsækjandi teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins er að hann hafi staðið í skilum með greiðslur tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts reiknaðs endurgjalds við skattyfirvöld við stöðvun reksturs, sbr. h-lið 18. gr. frumvarpsins.“

Í 2. mgr. 19. gr. segir svo um útreikning bótaréttar:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Þá segir svo í 4. mgr. 19. gr.:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi einu sinni á ári sem er að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði á síðasta tekjuári áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar.“

Við mat á tryggingahlutfalli kæranda var horft til síðustu 12 mánaða frá umsókn um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 54/2006. Starf kæranda fellur undir tekjuflokk E2 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Viðmiðunartekjur Ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokk E2 vegna ársins 2019 voru 428.000 kr. á mánuði og 446.000 kr. á mánuði vegna ársins 2020. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum reiknaði kærandi sér laun að fjárhæð 327.000 kr. frá september 2019 og út febrúar 2020 en 186.000 í mars 2020. Kærandi greiddi hins vegar ekki tilskilið tryggingagjald alla þá mánuði, heldur einungis í september og október 2019, auk að hluta í janúar 2020. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann sé búinn að vera lengi með í gangi greiðslusamkomulag við Skattinn og því hafi hann verið eftir á með greiðslur. Greiðslur kæranda til Skattsins hafi því farið inn á eldri skuldir samkvæmt samkomulagi.

Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum ber Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi reiknar sér vegna vinnu sinnar, að því gefnu að af þeim launum hafi verið greiddur mánaðarlegur staðgreiðsluskattur og tryggingagjald. Þar sem kærandi hafði ekki greitt tilskilin gjöld og skatta af reiknuðu endurgjaldi þann lágmarkstíma sem áskilinn er í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 54/2006 var hann ekki tryggður samkvæmt lögunum þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur.    

Kærandi telur að hann eigi stjórnarskrárvarinn rétt til atvinnuleysisbóta og því sé fyrirliggjandi lögskýring Vinnumálastofnunar of þröng. Þá hefur kærandi vísað til þess að ekki sé lögð sama krafa á launþega og því sé verið að mismuna einstaklingum.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna meðal annars atvinnuleysis. Samkvæmt jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar komi ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja í lög ákveðin skilyrði fyrir því að einstaklingar öðlist rétt til greiðslna samkvæmt atvinnuleysistryggingakerfinu og að mismunandi reglur gildi um launþega og sjálfstætt starfandi, enda um eðlisólíkar aðstæður að ræða. Því er ekki hægt að taka undir með kæranda að ákvörðun Vinnumálastofnunar brjóti í bága við 1. mgr. 76. gr. og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. nóvember 2022, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

__________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta