Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2023

Mál nr. 88/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 88/2023

Fimmtudaginn 13. apríl 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á bið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 11. janúar 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hann ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 7. mars 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki unnið frá því í október 2022 og verið tekjulaus. Kærandi hafi ekki fengið laun og sé kominn langt á eftir með allar greiðslur. Hann lifi á öldruðum foreldrum sínum og systkinum. Kærandi hafi vitað um þriggja mánaða viðurlög en ekki áttað sig á að hann þyrfti að stimpla sig á meðan. Hann hafi haldið að hann þyrfti bara að bíða í þrjá mánuði til að geta sótt aftur um. Þetta kerfi sé of flókið og hann sé viss um að lögfræðingur hefði ekki klúðrað þessu eins og hann sjálfur.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 28. júní 2022. Með erindi, dags. 12. júlí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Með erindi, dags. 6. október 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í þrjá mánuði, en kærandi hafi hvorki mætt til boðaðs viðtals á vegum Vinnumálastofnunar né boðað forföll. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga. Í erindi stofnunarinnar hafi verið sérstaklega áréttað að kærandi þyrfti að staðfesta atvinnuleysi sitt í hverjum mánuði á meðan á biðtíma stæði. Ef atvinnuleysi væri ekki staðfest á tilgreindum tíma myndi biðtíminn frestast þar til staðfesting hefði farið fram. Áður hafi kærandi verið beittur viðurlögum með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. maí 2022, á grundvelli 1. mgr. 58. gr. af sömu ástæðu.

Þann 4. nóvember 2022 hafi kærandi verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þar sem hann hafði ekki staðfest atvinnuleit sína á tilgreindum tíma. Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju með umsókn, dags. 11. janúar 2023. Með erindi, dags. 25. janúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Aftur á móti, með vísan til ótekinna viðurlaga hans frá 6. október 2022, myndu greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefjast að þremur mánuðum liðnum frá dagsetningu erindisins.

Þann 8. febrúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði verið launalaus síðan í október 2022. Hann hefði beðið í þrjá mánuði í kjölfar viðurlaganna sem honum hafi verið gert að sæta en ekki áttað sig á því að honum bæri að staðfesta atvinnuleit sína á viðurlagatímanum. Kærandi hafi óskað eftir aðstoð stofnunarinnar. Í kjölfar framangreindra skýringa hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2023, verið tekin til endurumfjöllunar. Með erindi, dags. 10. febrúar 2023, hafi kæranda þó verið tilkynnt að það væri mat Vinnumálastofnunar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 25. janúar 2023, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu í máli hans.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Eins og að framan hafi verið rakið hafi kærandi hvorki mætt til boðaðs viðtals né tilkynnt stofnuninni um forföll. Kæranda hafi af þeirri ástæðu verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. október 2022. Áður hafi kærandi verið beittur viðurlögum með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. maí 2022, á grundvelli 1. mgr. 58. gr. af sömu ástæðu. Þegar kærandi hafi síðar verið beittur viðurlögum með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2022, á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi komið til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hans, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna. Kæranda hafi því verið gert að sæta viðurlögum í þrjá mánuði í samræmi við 1. mgr. 61. gr.

Í 2. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að hinn tryggði skuli uppfylla skilyrði laganna á viðurlagatímanum samkvæmt 1. mgr. Meðal þeirra skilyrða sem atvinnuleitendum beri að uppfylla samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar sé skilyrði b-liðar 1. mgr. 13. gr. um virka atvinnuleit, sbr. 14. gr. sömu laga. Með vísan til 13. og 14. gr. laganna, auk 7. mgr. 9. gr. sömu laga, beri atvinnuleitanda að staðfesta að hann sé í virkri atvinnuleit mánaðarlega. Með því að staðfesta atvinnuleit sína í hverjum mánuði staðfesti atvinnuleitendur að þeir uppfylli enn skilyrði laganna, meðal annars skilyrðið um virka atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr., og að þeir sækist áfram eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Í virkri atvinnuleit felist að atvinnuleitandi þurfi að vera reiðubúinn að ráða sig til vinnu og taka þeim störfum sem bjóðist, auk þess að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum stofnunarinnar sem honum standi til boða, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þau samskipti atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar sem felist í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit séu þannig mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Þá sé ljóst að eigi aðili ekki virka umsókn hjá Vinnumálastofnun sökum þess að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína geti stofnunin ekki boðið honum vinnumarkaðsúrræði við hæfi.

Atvinnuleitendum sé gert að staðfesta atvinnuleit sína 20. til 25. hvers mánaðar. Kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína vegna októbermánaðar 2022. Af þeirri ástæðu hafi hann verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þann 4. nóvember 2022. Með vísan til 2. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því sem að framan hafi verið rakið hafi kæranda borið að staðfesta atvinnuleit sína á viðurlagatímanum. Í ljósi þessi að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína hafi viðurlagatími hans aldrei byrjað að líða. Vinnumálastofnun ítreki að kæranda hafi sérstaklega verið greint frá því samhliða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2022, að honum bæri að staðfesta atvinnuleit sína á viðurlagatímanum.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að þriggja mánaða viðurlagatími sem kæranda hafi verið gert að sæta með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2022, sé ekki liðinn, enda hafi kærandi ekki staðfest atvinnuleit sína á viðurlagatímanum líkt og honum hafi borið að gera með vísan til 2. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi eigi því ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2023.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. október 2022 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna með vísan til þess að hann hefði ekki mætt til boðaðs viðtals hjá stofnuninni. Í ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekið fram að kærandi þyrfti að staðfesta atvinnuleysi sitt 20. til 25. hvers mánaðar á meðan á biðtíma stæði. Einnig var tekið fram að ef atvinnuleysi væri ekki staðfest á tilgreindum tíma myndi biðtími frestast þar til staðfesting hefði farið fram. Þann 4. nóvember 2022 var kærandi afskráður af atvinnuleysisskrá með vísan til þess að hann hefði ekki staðfest atvinnuleit sína á tilgreindum tíma. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 11. janúar 2023. Umsókn kæranda var samþykkt en tekið fram að bætur yrðu ekki greiddar fyrr en ótekinn biðtími frá fyrri umsókn væri liðinn. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki áttað sig á að hann þyrfti að staðfesta atvinnuleit sína á viðurlagatímanum. Úrskurðarnefndin telur ljóst að kæranda hafi verið veittar skýrar leiðbeiningar og upplýsingar um að nauðsynlegt væri að staðfesta atvinnuleysi á meðan á biðtíma stæði.

Í 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í 31. gr. laga nr. 54/2006 að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.   

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 11. janúar 2023, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 og því hélt allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar hann skráði sig atvinnulausan að nýju 11. janúar 2023. 

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til A, á bið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

___________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta