Aldrei meiri aðsókn í Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskipta- og menningarráðherra og Sigtryggur Baldursson framkvæmdastjóri ÚTÓN.
Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar og ÚTÓN (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar) kynnti árið 2022 fræðslupakka á vef ÚTÓN með það að markmiði að fá sterkari umsóknir í sjóðinn. Jafnframt voru kynntar auka-úthlutanir til að mæta því áfalli sem heimsfaraldur kórónuveirunnar olli tónlistarsamfélaginu. Aðsókn í sjóðinn var aldrei meiri en árið 2022 og heldur áfram að snaraukast í byrjun árs 2023.
„Þessi árangur endurspeglar þann kraft sem er í íslenskri tónlist sem við verðum öll vör við. Ný tónlistarmiðstöð ásamt stærri tónlistarsjóði mun marka vatnaskil í auknum stuðningi við tónlistarfólk og styðja það í að skapa enn fleiri tækifæri á erlendri grundu,“ segir Lilja DÖgg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Markmið Útflutningssjóðs er að styrkja íslenskt tónlistarfólk í viðleitni sinni við að skapa sér alþjóðlegan feril í tónlist, og auka þar með verðmæti íslenskrar tónlistar í heild. Árið 2022 fengu yfir 30 verkefni markaðsstyrk eins og til dæmis Laufey, Systur sem tóku þátt í Eurovision, en líka hljómsveitir á borð við dimmbylgjubandið Kælan Mikla, rafpoppsveitina Ultraflex, Barokkbandið Brák og kvikmyndatónskáldin Atla Örvarsson og kirakira. Þau verkefni sem fengu markaðsstyrk á árinu 2022 tryggðu sér alls 939 birtingar samkvæmt gögnum sem Íslandsstofa tók saman í gegnum umfjöllunarvakt Cision.
Á grafinu hér að neðan má sjá hvaða tónlistarfólk fékk flestar umfjallanir samkvæmt þessum gögnum.
Þessi listi er um margt áhugaverður og má í raun skipta í tvennt: tónlistarfólk sem tryggir sér þátttöku á stórum viðburðum sem fá mikla umfjöllun á borð við Iceland Airwaves og Eurovision, og svo þau sem ná að skapa sér athygli utan þeirra.
Í fyrri hópnum tilheyra Systur sem tróna nær toppi, og fá alþjóðlegan vettvang með þátttöku sinni í Eurovision. Hatari hefur svo sýnilega getað byggt á sinni þátttöku árið 2019 með tónleikaferðalögum sem tekið er eftir. Mikilvægi Iceland Airwaves sem stökkpallur út í heim fyrir íslenskt tónlistarfólk kemur einnig auðsýnilega fram hér, en Ultraflex, Sycamore Tree og Atli Örvarsson spiluðu öll þar árið 2022 ásamt BSÍ, LÓN og Laufey. Þau þrjú síðastnefndu komu einnig fram á tónleikum Taste of Iceland viðburðarseríunar sem Íslandsstofa setur upp Í samstarfi við ÚTÓN á lykilmörkuðum í N-Ameríku sem ná til að mynda yfir KEXP flutning BSÍ. Þá eru eftir þrír aðilar: Laufey, JFDR (Jófríður Ákadóttir), og Kælan Mikla. Þau ná öll að tryggja sér umfjöllun utan stórviðburða á borð við Eurovision og Iceland Airwaves.
Það er eftirtektarvert til að skilja betur hvernig markaðsstyrkur Útflutningssjóðs getur áfram stutt íslenskt tónlistarfólk í að skapa sér farsælan feril. Velgengni Laufeyjar hefur verið einstök og endurspeglast vel í þessum gögnum. JFDR skrifaði undir plötsamning hjá breska útgáfufyrirtækinu Houndstooth og hefur væntanleg plata hennar sem kemur út í maí vakið mikla athygli nú þegar og fengið umfjöllun víða. Kælan Mikla setti land undir fót og kláraði þrjú stór tónleikaferðalög, alls 48 tónleika yfir árið í Evrópu, Bretlandi og Bandaríkjunum sem er að skila þeim enn stærri leggjum í ár.
Vert er að undirstrika að þessi samantekt nær aðeins til þeirra verkefna sem fengu markaðsstyrk úr Útflutningssjóði árið 2022. Hún nær því ekki utan um aðra alþjóðlega umfjöllun íslensks tónlistarfólk sem mörg áttu stór ár í útgáfu og/eða tónleikahaldi, eins og t.d. Björk, Sigur Rós, Kaleo, Ólafur Arnalds, Daði Freyr og fleiri sem eru því ekki talin með hér.
„Það er auðsjáanlega sterk innkoma hjá íslenskum tónlistarverkefnum eftir Kóvid en það er líka auðséð að sú vinna sem lögð var í Útflutningssjóðinn í fyrra 2022 er að skila sér og með trukki. Það er því fagnaðarefni að sjóðurinn stækki og eflist sem hluti af nýjum tónlistarsjóði nýrrar tónlistarmiðstöðvar sem fer af stað í haust,“ segir Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN.
Þau sem fengu markaðsstyrk árið 2022 eru Atli Örvarsson, Umbra, Barokkbandið Brák, LÓN, HATARI, Laufey, Tríó Sunnu Gunnlaugs, Ultraflex, Systur, kirakira (Kristín Björk Kristjánsdóttir), JFDR (Jófríður Ákadóttir), Sycamore Tree, Blew the Veils, BSÍ, Kristin Sesselja, Ingi Bjarni Kvintett, Inki, Guðmundur Steinn, Vévaki, INNI Music, Kælan Mikla, MSEA, neonme, Sin Fang, Hugi Guðmundsson, Brek, Viktor Orri & Álheiður Erla, Klemens Hannigan, Hafdís Huld, Þorleifur Gaukur Davíðsson og Kristín Anna Valtýsdóttir.
Þær birtingar sem þessi hópur fékk, án þess að telja Eurovision með, er samtals virði £4,761,006 – sem segir að það að kaupa sömu athygli fyrir íslenska tónlist myndi kosta rúmar 800 milljónir íslenskra króna. Veittir markaðsstyrkir Útflutningssjóðs árið 2022 námu 32.6 milljón krónum. Jafnframt var umfjöllunin sem styrkt íslensk tónlistarverkefni fengu áberandi jákvæð, sem sýnir að stír íslenskrar tónlistar berst ekki bara víða heldur er tekið vel. Þá eru ótaldar tekjur sem skapast í kjölfarið, eins og sala á tónleikamiðum, auknar tekjur af streymi, sölu á varning (e. merch) og aðrar afleiddar tekjur sem skapast við að byggja sér upp alþjóðlegan hlustendahóp.
Aðsókn í Útflutningssjóð
Árið 2022 setti ÚTÓN inn fræðslupakka á vef sinn til að stuðla að sterkari umsóknum inn í sjóðinn. Umsóknir eru metnar samkvæmt faglegum viðmiðum um útflutning, þ.e. að tónlistarfólk geti sýnt fram á að hvaða erindi þau eiga á erlendan markað á sannfærandi hátt í umsókn og meðfylgjandi fjárhagsáætlun.
„Við höfum séð mun vandaðri og betur unnar umsóknir í kjölfar þess að fræðslupakkinn var birtur á vef ÚTÓN. Þær hafa bæði verið hnitmiðaðri og mætt viðmiðum sjóðsins betur, en fjárhagsáætlanir hafa líka verið skýrari og ítarlegri. Fyrir vikið getur stjórnin einbeitt sér að innihaldi umsókna á markvissari hátt sem gerir okkar úrskurð sanngjarnari fyrir umsækjendur. Á sama tíma og gæði umsókna hafa aukist þá hefur mjög verðugum umsóknum einnig fjölgað gríðarlega og alveg sérstaklega nú á fyrri hluta ársins 2023. Við tökum því fagnandi,“ segir Eiður Arnarsson, formaður stjórnar Útflutningssjóðs.
ÚTÓN birti í lok síðasta árs að metaðsókn hefði verið í sjóðinn árið 2022 en alls var sótt um rúmlega 145 milljónir króna. Af þeim voru úthlutaðar 49.4 milljónir í bæði ferða- og markaðsstyrki og fóru þar fyrrnefndar 32.6 milljónir í markaðsstyrki. Nú í upphafi árs hefur aðsókn í sjóðinn farið upp allverulega, eða um 28% í ferðastyrki og 44% í markaðsstyrki frá sama tíma á síðasta ári.
Útflutningssjóður nú þegar fengið 4 milljónir til viðbótar til að mæta aukinni aðsókn nú á fyrri hluta árs. Ráðgert er að sjóðurinn renni inn í nýjan tónlistarsjóð seinna á árinu: Nýr Tónlistarsjóður mun taka yfir hlutverk Tónlistarsjóðs, Hljóðritasjóðs og Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar.
Skýrslu Íslandsstofu úr Cision má nálgast hér.