Tæplega 100 fjölbreyttar umsóknir bárust í Lóu - nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina
Alls bárust 98 umsóknir í Lóu - nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina en umsóknarfrestur rann út 27. mars sl. Styrkjunum er ætlað að auka við nýsköpun á landsbyggðinni og styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem komin eru af byrjunarstigi og tengjast samfélagslegum áskorunum á borð við loftslagsmál, sjálfbærni í heilbrigðis- og menntamálum og sjálfbærni í matvælaframleiðslu. Heildarfjárhæð úr Lóu árið 2023 er líkt og árið áður 100 milljónir króna.
Matsnefnd hefur nú hafið störf við að fara yfir umsóknir og áætlað er að tilkynnt verði um úthlutun styrkja í fyrri hluta maímánaðar. Mikill fjölbreytileiki einkennir umsóknir þessa árs og endurspegla þær ólík og margþætt nýsköpunarverkefni og hugmyndir sem unnið er að víðs vegar um landið. Við mat á umsóknum verður líkt og áður litið til þess að verkefnin styðji við uppbyggingu vistkerfis fyrir nýsköpunarstarfsemi og frumkvöðlastarf á forsendum hvers svæðis fyrir sig, sem og að verkefnin styðji við atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni.