Kynning á skýrslu um nýtingu vindorku - beint streymi
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði síðastliðið sumar þriggja manna starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða og gera tillögur til ráðherra um nýtingu vindorku, þ.á m. um lagaumhverfi hennar og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum.
Starfshópurinn hefur skilað ráðherra skýrslu sinni og eru niðurstöður hennar kynntar miðvikudaginn 19. apríl kl. 10:00. Hægt er að fylgjast með kynningunni í beinu streymi á vef Stjórnarráðsins.
Í skýrslunni er dregin saman ýmis álitaefni og settir fram valkostir um hvaða leiðir séu færar. Málefnin sem fjallað er um eru m.a. heildarstefnumörkun stjórnvalda um virkjun vindorku, afstaða til þess hvort vindorka heyri áfram undir lög um rammaáætlun og hvernig gjaldtöku af vindorkuverum verði háttað.
Starfshópinn skipuðu þau:
Hilmar Gunnlaugsson formaður hópsins
Björt Ólafsdóttir, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála
Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrv. alþingismaður.
Víðtækt samráð var haft við hagaðila við gerð skýrslunnar, en starfshópurinn hefur haldið vel á þriðja tug funda, auk þess sem yfir 70 gestir hafa komið á fundi starfshópsins og reglulegt samráð verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Í kjölfar kynningarinnar 19. apríl mun ráðherra, ásamt starfshópnum, halda opna fundi víða um land þar sem fjallað verður um stöðuskýrsluna, sem og orkuskipti með áherslu á hlutverk vindorku.
Vindorka - Valkostir og greining