Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagsþolin sveitarfélög til framtíðar: fyrsta aðlögunaraðgerð íslenskra stjórnvalda

Fláarjökull 1989-2020 - myndColin Baxter og Kieran Baxter

Fyrsta íslenska loftslagsaðgerð stjórnvalda sem miðar að því að auka viðnámsþrótt, loftslagsþol og seiglu Íslands undir hatti aðlögunar að loftslagsbreytingum er nú að líta dagsins ljós. Aðgerðin er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og er framkvæmd í samstarfi við Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands. Áætlað er að fjölmargir aðilar komi einnig að verkefninu og má þar nefna Samband íslenskra sveitarfélaga, fulltrúa sveitarfélaga, Almannavarnir auk annarra fagstofnana. Áætlað er að verkefninu ljúki í lok árs 2024.

Fimm sveitarfélög hafa staðfest þátttöku í tilraunaverkefni til að móta aðlögunaraðgerðir í heimasveit. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Akureyrarbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Fjallabyggð, Reykhólahreppur og Reykjanesbær en saman standa þau frammi fyrir fjölbreyttri áhættu vegna loftslagsvár, reiða sig á fjölbreyttar atvinnugreinar og eru ólík að stærð.

Verkefnið stuðlar jafnframt að innleiðingu aðlögunar á sveitarfélagastiginu öllu með gerð leiðarvísis fyrir íslensk sveitarfélög sem hyggjast hefja vinnu við að auka viðnámsþrótt og loftslagsverja samfélög sín, innviði og atvinnugreinar.

Leiðarvísir á að nýtast öllum sveitarfélögum á Íslandi óháð stærð, staðsetningu og mannafla og voru þátttökusveitarfélögin valin með það fyrir augum að verkefnið myndi spanna sem fjölbreyttastan hóp íslenskra sveitarfélaga, m.t.t. stærðar, íbúafjölda, staðsetningar, lykilatvinnugreina og loftslagstengdra áskorana. 

Öllum sveitarfélögum landsins býðst að vera aðilar að verkefninu í gegnum svokallaðan rýnihóp. Þar verður hægt að fylgjast með framgangi verkefnisins og taka þátt í mótun niðurstaðna og eru fulltrúar áhugasamra sveitarfélaga hvattir til þess að hafa samband við verkefnisstjóra varðandi þátttöku í rýnihóp.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Íslenskt samfélag þarf á næstu árum og áratugum að aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Hluti af því er uppbygging þekkingar á áhrifum loftslagsbreytinga á sveitarfélagastiginu. Við getum bæði fært okkur áhrifin í not og dregið eins og kostur er úr neikvæðum afleiðingum þeirra en grundvöllur hvoru tveggja er að vera viðbúin þessum breytingum og þar eru sveitarfélög einn lykil þátttakenda.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta