Styrkir Fjólu, félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur styrkt Fjólu, félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Styrkurinn nemur 1,3 milljónum króna.
Félagið var stofnað árið 1994 og hét fyrst um sinn Daufblindrafélag Íslands en árið 2011 var nafninu breytt í Fjólu – félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Meginmarkmið félagsins er að standa vörð um og berjast fyrir réttindum og menningu fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Snædís Rán Hjartardóttir, formaður Fjólu, undirritaði styrksamkomulagið fyrir hönd félagsins og með henni voru Áslaug Ýr Hjartardóttir, gjaldkeri, og Sigurjón Einarsson, varaformaður.