Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árétting vegna losunarframreikninga

Umhverfisstofnun hefur birt landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda sem gefin er út árlega til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Skýrslan sem skilað er nú inniheldur losunarbókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti á Íslandi á árunum 1990-2021.

Samhliða hefur stofnunin birt framreikninga um áætlaða losun og bindingu til ársins 2050.

Í fréttum undanfarna daga hefur því verið slegið upp að langt sé í land að Ísland nái að uppfylla sín markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Í því samhengi er rétt að benda á nokkur atriði.

Framreikningar  Umhverfisstofnun  byggja á aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum frá árinu 2020. Sú aðgerðaráætlun miðar við skuldbindingar innan markmiðs um 40% heildar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ríkja ESB, Noregs og Íslands. Þar voru skuldbindingar á beina ábyrgð Íslands 29%, auk þess sem þáverandi ríkisstjórn setti sér sjálfstætt markmið um 40% samdrátt.

Aðgerðaráætlunin miðar s.s. við gömul markmið sem nú hafa verið hert.

Ekki allar aðgerðir inni í framreikningunum

Þá er einnig vert að nefna að framreikningar Umhverfisstofnunar eru að mörgu leyti varfærnir þar sem skv. alþjóðlegri aðferðafræði framreikninga er ekki lagt mat á aðgerðir nema þær séu að fullu komnar til framkvæmda auk þess sem að þær þurfa að vera að fullu fjármagnaðar út það tímabil sem fyrirsjáanlegt er að þær verði í framkvæmd. Af þeim 50 aðgerðum sem miðuðu við eldri markmið eru 49 komnar í framkvæmd eða vinnslu og eru sumar þeirra ekki metnar í framreikningum Umhverfisstofnunar.

Töluverð óvissa ríkir um vissu þeirra gagna sem liggja að baki útreikninga og framreikninga á landnotkunarhluta framreikninganna (LULUCF). Ráðuneytið hefur styrkt verkefni sem vinna að því að efla rannsóknir og bæta gögn um losun og bindingu frá landi til þess að tryggja megi að þau uppfylli kröfur um gæði og áreiðanleika og séu samanburðarhæf á alþjóðavettvangi.

Ljóst er að margar af þeim aðgerðum sem nú eru í framkvæmd eða koma senn til framkvæmda eru ekki inni í framreikningum Umhverfisstofnunar. Má þar nefna styrki til bílaleiga vegna kaupa á rafbílum, en sú breyting hefur nú orðið að stjórnvöld eru hætt að beita ívilnunum til kaupa á jarðefnaeldsneytisbílum og styrkja þær fremur til kaupa á rafbílum. Þá eru áhrif styrkja til kaupa á þungaflutningabifreiðum sem keyrðir verða á rafmagni ekki heldur í framreikningunum.

Undanfarna mánuði hafa stjórnvöld í samvinnu við atvinnulífið unnið að gerð áfangaskiptra losunarmarkmiða innan hvers geira atvinnulífsins, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Sú vinna er enn í fullum gangi og mun afrakstur þeirrar vinnu vera nýttur í  uppfærða aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.

Þrátt fyrir áðurnefnd atriði þá er ljóst að það er mikið verk að vinna ætli Ísland sér að ná settum markmiðum og að geta staðist þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gengist undir þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Vinna stendur yfir í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu við uppfærslu aðgerðaráætlunar til samræmis við hert markmið.

Ráðuneytið vinnur nú að uppfærðri aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum og stefnt er að útgáfu hennar síðar á þessu ári. Áætlunin, sem byggir á eldri áætlun mun taka mið af þeim tillögum  sem leiða af samtali ráðuneytisins við Samtök atvinnulífsins, sveitarfélögin, samtök í landbúnaði o.fl. um gerð loftslagsvísa atvinnulífsins en niðurstaða þess samtals verður kynnt í júní.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins munu innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa með mælanlegum markmiðum að því marki sem unnt er, sértækum aðgerðum og úrbótatillögum sem stuðla að samdrætti í losun. Þá munu vegvísarnir ramma inn aðgerðir sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum til að koma á umbótum í loftslagsmálum.

Þá verða styrktar aðgerðir í áætluninni sem varða sérstaklega hringrásarhagkerfið og orkuskipti.

Brýnt er að upplýsingar um loftslagsmál, losunartölur og spár um þróun losunar, bindingar og orkuþarfar til orkuskipta séu skýrt fram settar þannig að staða gagnvart markmiðum Íslands sé aðgengileg og augljós. Jafnframt er mikilvægt að setja fram eins og kostur er orkutölfræði samhliða loftslagsupplýsingum.

Guðlaugur Þór Þórðarson: „Ljóst er að til þess að markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þá þarf að setja enn meiri kraft í aðgerðir og samfélagið allt þarf að leggjast á eitt. Við þurfum að hlaupa hraðar en við gerum í dag. Verkefnin eru mörg og áskoranirnar stórar, en tækifærin sem í þeim felast og ágóðinn þegar að við náum settu marki mun borga sig fyrir okkur innan fárra ára sem og fyrir komandi kynslóðir.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta