Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Björk Sigurgísladóttir tilnefnd í embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits

Björk Sigurgísladóttir  - mynd

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur tilnefnt Björk Sigurgísladóttur í embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits. Um er að ræða embætti sem forsætisráðherra skipar í.

Forsætisráðherra auglýsti 7. febrúar 2023 eftir varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits. Í samræmi við lög um Seðlabanka Íslands skipaði fjármála-og efnahagsráðherra hæfnisnefnd til að fjalla um hæfni umsækjendanna og lauk hún störfum síðastliðinn miðvikudag. Niðurstaða hennar var að meta alla sex umsækjendur um embættið hæfa til að gegna því en að tveir þeirra bæru þó af. Eftir að niðurstaða hæfnisnefndar lá fyrir dró annar þeirra umsókn sína til baka. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú farið yfir niðurstöður hæfnisnefndarinnar og önnur gögn málsins og hefur ákveðið að tilnefna Björk í embættið.

Í lögum um Seðlabanka Íslands er forsætisráðherra falið að skipa seðlabankastjóra og þrjá varaseðlabankastjóra en varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits eru skipaðir að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra.

Björk er lögfræðingur að mennt, með LLM gráðu frá University of Iowa og MBA gráðu frá University of Northern Iowa. Hún hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri lagalegs eftirlits og vettvangsathugana hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands og starfar nú sem framkvæmdastjóri háttsemiseftirlits hjá Seðlabanka Íslands.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta