Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar NB8-ríkjanna heimsóttu Moldóvu

Frá fundi NB8-ráðherranna með Nicu Popescu utanríkisráðherra Moldóvu - myndUtanríkisráðuneyti Moldóvu

Aukinn stuðningur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja við Moldóvu, öryggismál í Evrópu og aðild Moldóvu að Evrópusambandinu voru aðalumræðuefnin á fundum utanríkisráðherra NB8-ríkjanna með leiðtogum Moldóvu í Chisinau í dag.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er stödd í Chisinau, höfuðborg Moldóvu, ásamt öðrum utanríkisráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8). Í morgun áttu ráðherrarnir fund með Nico Popescu, utanríkisráðherra Moldóvu þar sem staðan í öryggismálum Austur-Evrópu vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu og málefni Atlantshafsbandalagsins voru meðal annars til umræðu. Að fundi loknum héldu ráðherrarnir blaðamannafund og sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem vinátta ríkjanna var áréttuð og vilji til að stuðla í sameiningu að friði, stöðugleika og velgengni Moldóvu.

„Moldóva hefur orðið fyrir mjög neikvæðum áhrifum af innrás Rússlands í Úkraínu, bæði hvað varðar efnahag landsins og félagslega innviði. Með heimsókn okkar viljum við sýna að Moldóva eigi bakhjarl í Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum og að við séum reiðubúin til að leggja okkar af mörkum til að greiða götu landins inn í samfélag vestrænna lýðræðisríkja,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Síðdegis hittu ráðherrarnir annars vegar Doris Recean forsætisráðherra Moldóvu og Maia Sandu, forseta landsins. Þá heimsóttu þau þjóðþingið þar sem Igor Grosu þingforseti tók á móti þeim. Auk umfjöllunarefnanna sem nefnd voru að ofan voru umræður um aðild Moldóvu að Evrópusambandinu einnig fyrirferðarmiklar en landið hlaut stöðu umsóknarríkis í fyrrasumar.

Jafnframt áttu ráðherrarnir fundi með frjálsum félagasamtökum og hittu fulltrúa Evrópusambandsins og Öryggis- og samvinnustofnunarinnar (ÖSE) í landinu.

Auk Þórdísar Kolbrúnar tóku þátt í heimsókninni Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðhera Danmerkur, Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litáens, Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, Margus Tsahkna og utanríkisráðherra Eistlands auk Kai Sauer, aðstoðarráðherra í finnska utanríkisráðuneytinu.

  • Frá heimsókninni í þing Moldóvu - mynd
  • Frá fundi með frjálsum félagasamtökum - mynd
  • Frá fundi NB8-ráðheranna með Maia Sandu forseta Moldóvu - mynd
  • Frá fundi NB-ráðherranna með Dorin Recean forsætisráðherra Moldóvu - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta