Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Könnun á auknu samstarfi eða sameiningu framhaldsskóla

Mennta- og barnamálaráðherra skipaði í síðustu viku stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Hópnum var falið að leggja fram tillögur að framtíðarskipulagi til að auka gæði náms og bregðast við breytingum í umhverfi skólanna.

Að frumkvæði stýrihópsins og mennta- og barnamálaráðuneytisins hafa skólameistarar eftirfarandi skóla hafið viðræður um aukið samstarf skólanna um fagleg og rekstrarleg málefni eða sameiningu skólanna í nýjar og öflugri einingar:

  • Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri
  • Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Sund
  • Flensborgarskólinn í Hafnarfirði og Tækniskólinn
  • Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs

Skólastjórnendur munu vinna með stýrihópnum að gerð skýrslu um kosti og galla þessara sviðsmynda og leggja fyrir mennta- og barnamálaráðherra fyrir lok maí. Í störfum hópsins verður haft samráð við fulltrúa nemenda, kennara og starfsfólk skólanna og aðra hagaðila. Niðurstaða viðræðna mun ekki hafa áhrif á skipulag eða innihald náms á komandi skólaári hjá nemendum og starfsfólki skólanna og heldur ekki hjá þeim nýnemum sem innritast í skólana í vor.

Mennta- og barnamálaráðherra skipaði stýrihópinn til að takast á við áskoranir sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir á komandi árum. Lögð er áhersla á að nálgast viðfangsefnið með þarfir nemenda í fyrirrúmi og kanna hvort hægt verði með aukinni faglegri samlegð, breidd og hagkvæmni að gera þeim betur kleift að mæta breytingum í samfélaginu auk þess að tryggja fjölbreytni í námsframboði og gæði náms. Nýta skal afrakstur aukinnar hagræðingar og samlegðar í eflingu skólaþjónustu, betri námsgögn og meiri stuðning við nemendur sem standa höllum fæti og nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.

Með þessum áherslum verður meðal annars hægt að fylgja eftir framsækinni menntastefnu stjórnvalda til 2030 og ná fram markmiðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um eflingu verk- og starfsnáms. Ráðherra hefur jafnframt lagt áherslu á að tillögur hópsins byggi á markmiðum stjórnvalda um að auka farsæld barna og ungmenna, til að mynda með öflugra skólastarfi, samþættingu kerfa, eftirfylgni og samvinnu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta