Utanríkisráðherrar NB8-ríkjanna í Odesa í Úkraínu
Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja heimsóttu í dag úkraínsku hafnarborgina Odesa til að árétta stuðning sinn við stjórnvöld í landinu og undirstrika mikilvægi þess að kornútflutningur frá borginni gangi hindranalaust fyrir sig.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fór ásamt öðrum utanríkisráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til Odesa í morgun. Borgin er mikilvægasta höfn landsins, ekki síst hvað varðar úflutning á hveiti, kornmeti og áburði, og hefur af þeim sökum orðið fyrir hörðum loftárásum Rússa allt frá upphafi innrásarinnar.
Rétt eins og þegar ráðherrarnir heimsóttu Kænugarð saman í nóvember var markmið þessarar heimsóknar að sýna úkraínskum stjórnvöldum eindreginn stuðning vegna innrásarstríðs Rússlands. Höfnin í Odesa var einn af fyrstu viðkomustöðum þeirra þar sem Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu kynnti þeim mikilvægi hafnarinnar, ekki síst fyrir matvælaöryggi í heiminum. Þá greindi hann þeim jafnframt frá framkvæmd samkomulags um útflutning á korni sem komið var á í fyrra með milligöngu Tyrklands og Sameinuðu þjóðanna.
„Odesa sýnir glöggt hvernig öryggi einnar borgar getur haft veruleg áhrif um gjörvallan heim. Þess vegna er svo áríðandi að tryggja bæði öryggi hennar og hindranalausar siglingar þaðan með hveiti og annað kornmeti. Í því sambandi skiptir samkomulagið sem kennt er við Svartahaf svo miklu máli. Tilraunir Rússlands til að ógna matvælaöryggi í heiminum sem lið í stríðsrekstri sínum eru því með öllu óásættanlegar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Ráðherrarnir áttu svo vinnuhádegisverð með Kuleba utanríkiráðherra þar sem hann ræddi meðal annars væntingar Úkraínu um inngöngu í Atlantshafsbandalagið og áformaða gagnsókn gegn rússneska herliðinu. Þar væri aðalmarkmiðið fullnaðarsigur Úkraínu, hvort sem eina eða fleiri gagnsóknir þyrfti til. Ráðherrarnir tóku auk þess þátt í viðburði um uppbyggingu í þessum hluta landins, Odesa Region Recovery Forum, þar sem Þórdís Kolbrún flutti stutt innlegg, héldu jafnframt blaðamannafund og skoðuðu gamla miðbæjarkjarnann í Odesa sem skráður var á heimsminjaskrá UNESCO í byrjun þessa árs.
„Þetta er í þriðja sinn sem ég heimsæki Úkraínu. Í hvert skipti sem ég kem hingað styrkist ég í þeim ásetningi að gera allt sem í mínu valdi stendur til að styðja úkraínsku þjóðina í hetjulegri baráttu hennar gegn innrásaröflunum. Sameiginlegar rætur Úkraínu og Norðurlanda liggja langt aftur og okkur ber að hlúa að þessum tengslum og efla þau,“ segir Þórdís Kolbrún.
Heimsókn utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til Odesa lauk síðdegis en þaðan héldu þeir aftur til Chisinau í Moldóvu.