Hvatningarátakið Hjólað í vinnuna hófst í dag
Hvatningarátakið Hjólað í vinnuna var sett í morgun í blíðskaparveðri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þetta er í 21. sinn sem efnt er til þessa átaks sem miðar að því að hvetja sem flesta til að nýta sér þennan umhverfisvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta.
Efnt hefur verið til samstarfs við UNICEF. Fyrirtækjum gefst kostur á að heita á starfsfólk sitt og fara þeir fjármunir sem safnast inn í loftslagssjóð UNICEF. Sjóðurinn er m.a. nýttur til að styrkja menntun og fræðslu fyrir börn og ungt fólk um loftlagsáhrif og nýsköpun á sjálfbærum og umhverfisvænum lausnum fyrir heilbrigðis- og menntakerfi. Markmiðið er að efla innviði samfélaga til að auka viðnám við loftslagsbreytingum.
Við upphaf setningarinnar í morgun bauð Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá verkefninu og þróun þess. Að því loknu tóku til máls Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Birna Þórarinsdóttir, forstjóri Samgöngustofu og Úlfar Linnet, hjólreiðakappi. Öll voru þau sammála um mikilvægi verkefnisins og hvöttu þau landsmenn til að velja þennan umhverfisvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta.
- Allar upplýsingar um átakið á www.hjoladivinnuna.is