Lilja Dögg opnaði HönnunarMars í Hörpu
„Þessi uppskeruhátíð er einn af skemmtilegustu vorboðunum. Á HönnunarMars eru tækifæri til að upplifa, læra, njóta og tengjast, og fjölbreytileiki viðburðanna færir sönnur á því hvernig íslensk hönnun og arkitektúr eru mikilvægt breytingafl og tæki til nýsköpunar sem nýst getur samfélaginu okkar á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Á HönnunarMars sameinast allar greinar hönnunar. Fimmtánda árið í röð er HönnunarMars boðberi nýrra hugmynda, innblásturs, skapandi lausna og bjartsýni þar sem framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti. Hátíðin stendur yfir til 7. maí.
Í ár endurspegla 100 sýningar, 400 þátttakendur og 100 viðburðir það sem efst er á baugi á sviði hönnunar og arkitektúrs, veita innsýn inn í nýjar lausnir og hugmyndir og sýna nýjar leiðir til að takast á við áskoranir samtímans til innblásturs fyrir þátttakendur og gesti.
Skapandi tilraunir, endurvinnsla, nýsköpun, endurnýting, verðmætasköpun og leikur eru rauður þráður í dagskránni þar sem ólíkar hönnunargreinar á borð við arkitektúr, grafíska hönnun, fatahönnun, vöruhönnun og stafræna hönnun varpa ljósi á þá miklu grósku sem á sér stað í hönnun hér á landi.
Dagskrá HönnunarMars 2023 má nálgast HÉR.