Samstarf við Japan í jarðhitamálum
Komið verður á fót formlegu samstarfi Íslands og Japans á sviði jarðhitamála. Yfirlýsing þessa efnis var undirrituð af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Yasutoshi Nishimura, efnahagsmálaráðherra Japans, á fundi þeirra í Reykjavík sl. sunnudag.
Á fundi ráðherranna kom fram að japönsk stjórnvöld vilja efla nýtingu jarðhita heima fyrir, sem lið í hreinum orkuskiptum. Japanir vilja skoða reynslu og þekkingu Íslendinga á því sviði og koma á tengslum sérfræðinga og fyrirtækja.
Guðlaugur Þór sagði að Ísland og Japan byggju að áratuga góðu samstarfi á vettvangi viðskipta, menningar og á öðrum sviðum. Mikilvægt væri að lýðræðisríki styrktu samstarf sitt enn frekar á erfiðum tímum. Loftslagsváin sé risastór áskorun fyrir heimsbyggðina og í baráttu gegn henni felist tækifæri til samstarfs. Japanskar túrbínur séu notaðar í íslenskum jarðhitavirkjunum; saman búi ríkin tvö yfir mikilli reynslu, þekkingu og tækni á sviði jarðvarmanýtingar. Aukið samstarf í framtíðinni gagnist báðum ríkjum.
Nishimura sagði að hann hefði komið til Íslands gagngert til að kynna sér reynslu Íslands af nýtingu jarðhita og endurnýjanlegrar orku. Japanir vilji gjarnan kynna sér þekkingu Íslendinga m.a. á sviði vetnismála og niðurdælingar koldíoxíðs, en rétt skref væri að byrja á auknu samstarfi tengdu jarðhita.
Heimsókn Nishimura kemur í kjölfar heimsóknar Guðlaugs Þórs til Japans í mars sl., þar sem hann átti m.a. fundi með umhverfisráðherra og aðstoðarefnahagsráðherra Japans og tók þátt í þingi Hringborðs Norðurslóða í Tókýó.