Góður árangur Íslands í frammistöðumati ESA
Innleiðingarhalli Íslands hefur minnkað um helming á undanförnum misserum,úr tveimur prósentum í eitt prósent. Þetta kemur fram í nýbirtu frammistöðumati frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Til samanburðar var árangur Noregs 1,5 prósent og Liechtenstein 0,4 prósent. Viðmiðunartími matsins að þessu sinni var 30. nóvember 2022.
Frammistaða Íslands vegna innleiðingar EES-gerða hefur batnað mikið á síðustu misserum. Í síðasta mati var innleiðingarhalli Íslands tvöprósent og þar áður 1,6 prósent. Þá kemur fram í frammistöðumatinu að innleiðing á reglugerðum hefur einnig farið batnandi.
Ríkisstjórnin leggur áherslu á bætta framkvæmd EES-samningsins og hagsmunagæslu innan samstarfsins. Mikilvægur þáttur í því er að þegar ákveðið hefur verið að taka tilteknar reglur inn í EES-samninginn að þær séu þá innleiddar hér á landi tímanlega og með réttum hætti. Með því er best tryggt að íslenskir borgarar og fyrirtæki sitji við sama borð og aðrir á EES-svæðinu.