Hoppa yfir valmynd
8. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Íslandsdagur í Strassborg

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra opnaði bókmenntaviðburð í Strassborg í tilefni af formennsku Íslands í Evrópuráðinu. - mynd

Íslenskar bókmenntir og kvikmyndir voru hafðar í öndvegi á Íslandsdeginum svokallaða sem haldinn var um helgina í Strassborg í tilefni af formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Íslandsdagurinn var lokaviðburður menningardagskrár formennskunnar sem staðið hefur yfir í Strassborg frá því að Ísland tók við henni í nóvember síðastliðnum. 

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra opnaði bókmenntaviðburð í miðborg Strassborgar þar sem rithöfundarnir Jón Kalman Stefánsson og Sigríður Hagalín Björnsdóttir og þýðandinn Eric Boury tóku þátt. Þar sköpuðust líflegar og skemmtilegar umræður um íslenskar bókmenntir, þýðingar og starf rithöfunda.

Efnt var til ýmissa viðburða í tilefni dagsins, svo sem listsýningar sem innblásin var af íslenskri náttúru og sýningar Grænvangs, Grænnar framtíðar, í nýju viðmóti þar sem grænar lausnir eru kynntar. 

Ráðherra flutti jafnframt opnunarávarp þegar kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, var sýnd en fyrir sýninguna voru stiklur úr nokkrum íslenskum kvikmyndum jafnframt birtar. 

Menningardagskrá Íslands í Strassborg

Formennskuríki Evrópuráðsins standa ætíð fyrir sérstakri menningardagskrá og veitir formennska Íslands í ráðinu því einstakt tækifæri til að kynna land og þjóð í Strassborg og nágrenni. Menningardagskrá Íslands, sem hefur í senn verið metnaðarfull og fjölbreytt, var skipulögð af fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu í samvinnu við utanríkisráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið, miðstöð lista og skapandi greina og Íslandsstofu. Staðið hefur verið fyrir íslenskum menningarviðburðum fyrir almenning í Strassborg á um mánaðarfresti.

  • Íslenskar bókmenntir voru hafðar í öndvegi á Íslandsdeginum - mynd
  • Íslandsdagur í Strassborg  - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta