Hoppa yfir valmynd
9. maí 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla: Stafrænt aðgengi barna að klámi og áhrif þess á heilsu og líðan

Willum Þór heilbrigðisráðherra ásamt Jenný Ingudóttur og Guðný Bergþóru Tryggvadóttur sérfræðingum hjá embætti landlæknis - mynd

Embætti landlæknis hefur lokið mati á áhrifum stafræns aðgengis barna og ungmenna að klámi á heilsu þeirra og líðan og hefur skýrsla með niðurstöðum matsins verið birt. Matið var gert í samræmi við ályktun Alþingis um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Á grundvelli þess verða mótaðar tillögur um aðgerðir sem stuðla að kynheilbrigði ungs fólks.

Alþingi samþykkti sumarið 2021 heildstæða þingsályktun sem snýr að forvörnum meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Í áætluninni eru skilgreindar aðgerðir sem eiga að taka á þessum vanda, svo sem með markvissri fræðslu til allra sem starfa með börnum og ungmennum og samantekt námsefnis á einum stað. Fylgjast má með stöðu aðgerða á mælaborði á vef Stjórnarráðsins.

Áætluninni er skipt upp í alls 26 aðgerðir á nokkrum sviðum, þ.e. almennar aðgerðir, forvarnir á mismunandi skólastigum, forvarnir í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi og loks aðgerðir sem snúa að eftirfylgni og mati á árangri. Ein aðgerðanna snýr að því að meta áhrif aðgengis barna og ungmenna að klámi á heilsu þeirra og líðan. Ábyrgðaraðili er heilbrigðisráðuneytið sem fól embætti landlæknis að útfæra vinnuna. Byggt var á gögnum frá Rannsóknum og greiningu.

Í samantekt á vef embættis landlæknis eru dregnar saman helstu niðurstöður matsins ásamt frekari umfjöllun um efnið og ábendingum um leiðir til úrbóta. Eins og þar kemur fram hefur klámefni og aðgengi að því breyst mikið á undanförnum árum með tilkomu netsins. Börn og ungmenni fara ekki varhluta af greiðu aðgengi að klámefni sem jafnframt er orðið mun grófara en áður. Matið sýnir að tengsl eru milli klámáhorfs og ýmissar vanlíðunar barna og ungmenna og þótt ekki sé hægt að fullyrða um orsakatengsl segja skýrsluhöfundar að þetta veki áhyggjur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta