Hoppa yfir valmynd
10. maí 2023

Mál nr. 129/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 129/2023

Miðvikudaginn 10. maí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 3. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. janúar 2023 um að synja umsókn hennar um milligöngu um meðlagsgreiðslur fyrir tímabilið 1. september 2021 til 19. október 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. janúar 2022, sótti kærandi um milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagsgreiðslum með syni sínum frá 1. september 2021. Með bréfi, dags. 18. mars 2022, óskaði Tryggingastofnun eftir afriti af meðlagsákvörðun á milli kæranda og barnsföður hennar fyrir umbeðið tímabil. Kærandi lagði ekki fram slíka ákvörðun. Með tölvupósti 29. september 2022 fór kærandi fram á endurskoðun Tryggingstofnunar ríkisins á meðlagsgreiðslum vegna sonar síns fyrir tímabilið 1. september 2021 til 19. október 2021. Krafa kæranda var sú að stofnunin endurgreiddi henni meðlagsgreiðslur fyrir framangreint tímabil. Með bréfi, dags. 19. janúar 2023, synjaði stofnunin kæranda um greiðslu meðlags fyrir umbeðið tímabil á þeim forsendum að ekki lægi fyrir gild meðlagsákvörðun um að barnsfaðir hennar ætti að greiða henni meðlag á þeim tíma. Krafa kæranda um endurgreiðslu var einnig synjað á þeim forsendum að ekki væri til staðar ofgreiðslukrafa.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. mars 2023. Með bréfi, dags. 8. mars 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. mars 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru vísar kærandi í beiðni sína um endurskoðun á meðlagsgreiðslum með syni sínum vegna tímabilsins september og október 2021.

Kærandi greinir frá því að í upphafi hafi legið fyrir meðlagssamningur á milli kæranda og barnsföður hennar. Síðar hafi verið gerður nýr meðlagssamningur hjá Sýslumanninum B þess efnis að meðlag ætti að greiðast til fósturföður drengsins.

Tveimur mánuðum fyrir 18 ára afmæli sonar kæranda hafi hann flutt lögheimili sitt aftur til hennar en meðlagsgreiðslur hafi áfram borist til fósturföður hans sem hafi svo greitt kæranda þær. Vegna lögheimilisflutningsins hafi Tryggingastofnun krafist endurgreiðslu meðlags frá fósturföður. Kærandi hafi þess vegna endurgreitt meðlagsgreiðslurnar til fósturföður vegna umrædds tímabils.

Í framhaldinu hafi kærandi óskað eftir því að fá meðlagsgreiðslur greiddar frá Tryggingastofnun fyrir umrætt tímabil. Óskað hafi verið eftir nýjum meðlagssamningi frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu á milli hennar og barnsföður vegna umrædds tímabils. Þar sem að barnsfaðir hennar sé búsettur erlendis hafi tekið tíma að ná í hann til að fá nýjan samning undirrritaðan.

Sýslumaðurinn hafi synjað staðfestingu á nýja meðlagssamningnum með þeim rökum að til væri meðlagssamningur á milli móður og barnsföður sem áður hefði verið undirritaður og tímamörk fyrir ákvörðun um afturvirkt meðlag væri liðið. Þess vegna greiði Tryggingastofnun ekki meðlag fyrir umætt tímabil til kæranda. Barnsfaðir kæranda hafi ekki fengið endurgreitt meðlag vegna framangreinds tímabils.

Farið sé farið fram á að málið verið endurskoðað og að kæranda verði greiddar til baka meðlagsgreiðslur fyrir umrætt tímabil þar sem öll gögn séu til staðar sem styðji þá kröfu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran varði synjun á beiðni um afturvirkar greiðslur meðlags og endurskoðun á endurgreiðslu.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi með umsókn, dags. 13. janúar 2022, sótt um milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagsgreiðslum með syni sínum frá 1. september 2021. Með bréfi, dags. 18. mars 2022, hafi stofnunin óskað eftir afriti af meðlagsákvörðun þar sem fram komi að barnsfaðir kæranda eigi að greiða kæranda meðlag með syni þeirra frá 1. september 2021. Í bréfinu komi fram að gefnar hafi verið út meðlagsákvarðanir 2020 og 2021 þar sem fram komi að barnsfaðir kæranda eigi að greiða stjúpföður sonar kæranda meðlag með honum til 18 ára aldurs hans og að við útgáfu þeirra meðlagsákvarðana hafi fallið úr gildi meðlagsákvörðun frá árinu 2004.

Þann 1. apríl 2022 hafi Tryggingastofnun borist úrskurður frá Sýslumanninum í B, dags. 2. júní 2021, þar sem komi fram að barnsfaðir kæranda ætti að greiða stjúpföður sonar þeirra meðlag með honum frá 1. október 2020 til 1. nóvember 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 1. júlí 2022, hafi verið ítrekuð sú ósk að kærandi legði fram afrit af nýrri meðlagsákvörðun þar sem fram kæmi að barnsfaðir kæranda ætti að greiða kæranda meðlag með syni sínum frá 1. september 2021.

Með tölvupósti 29. september 2022 hafi kærandi á ný óskað eftir endurskoðun á meðlagsgreiðslum vegna sonar síns. Með tölvupóstinum hafi meðal annars fylgt rökstuðningur, dags. 28. september 2022, ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 23. september 2022, þar sem synjað hafi verið um staðfestingu á samningi um meðlag á milli kæranda og barnsföður hennar og staðfesting á samkomulagi um meðlag frá Sýslumanninum í Reykjavík, dags. 13. október 2004, þar sem komi fram að barnsfaðir kæranda hafi samþykkt að greiða kæranda meðlag með syni þeirra frá 20. október 2003 til 18 ára aldurs hans.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2023, hafi kæranda verið synjað um greiðslu meðlags fyrir tímabilið 1. september 2021 til 19. október 2021 þar sem ekki hafi legið fyrir gild meðlagsákvörðun þar sem fram kæmi að barnsfaðir kæranda ætti að greiða henni meðlag á þeim tíma. Þá hafi komið fram í bréfinu að ekki hefði verið um að ræða meðlagsgreiðslur til kæranda á árinu 2021 og því væru engar ofgreiðslukröfur til staðar og því væri ekki hægt að endurgreiða kæranda.

Kærandi hafi kært þá ákvörðun Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Hjá stofnuninni liggi fyrir tvær meðlagsákvarðanir þar sem komi fram að barnsfaðir kæranda skuli greiða stjúpföður sonar kæranda meðlag með honum. Annars vegar staðfesting á samkomulagi um meðlag frá Sýslumanninum í B, dags. 3. desember 2020, þar sem barnsfaðir kæranda hafi samþykkt að greiða stjúpföður sonar síns meðlag með honum frá 2. nóvember 2020 til 18 ára aldurs barnsins. Hins vegar úrskurður Sýslumannsins í B, dags. 2. júní 2021, þar sem komi fram að barnsfaðir kæranda skuli greiða stjúpföður sonar síns meðlag með honum frá 1. október 2020 til 1. nóvember 2020.

Báðar þessar meðlagsákvarðanir séu nýrri en samkomulag kæranda og barnsföður hennar frá árinu 2004 um að hann skuli greiða henni meðlag með syni þeirra og því sé það samkomulag fallið úr gildi.

Þar sem ekki liggi fyrir ný meðlagsákvörðun sem segi að barnsfaðir kæranda skuli greiða henni meðlag með syni þeirra frá 1. september 2021 hafi henni verið synjað um milligöngu meðlags. Bent sé á að einungis sé heimilt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags 12 mánuði aftur í tímann og um er að ræða tímabil lengra aftur í tímann en það.

Þá skuli það tekið fram að ekki hafi verið um að ræða neinar meðlagsgreiðslur til kæranda á árinu 2021 og því engar ofgreiðslukröfur til staðar hjá kæranda frá þeim tíma.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglur og góða stjórnsýsluhætti.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. janúar 2023 um að synja umsókn kæranda um milligöngu meðlags með syni hennar fyrir tímabilið 1. september 2021 til 19. október 2021. 

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir lögformleg meðlagsákvörðun um meðlagsskyldu föður til kæranda fyrir tímabilið 1. september til 19. október 2021.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina, í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar Tryggingastofnunar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær lögformlega ákvörðun um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt ákvörðuninni. Eins og áður hefur komið fram liggur ekki fyrir lögformleg meðlagsákvörðun í máli þessu vegna umbeðins tímabils. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að stofnuninni sé því ekki heimilt að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda á því tímabili.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. janúar 2023 um að synja umsókn kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um milligöngu meðlagsgreiðslna, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_______________________________________

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta