Hoppa yfir valmynd
11. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ísland upp í fimmta sæti á Regnbogakorti ILGA Europe og í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu

Ísland er komið upp í fimmta sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) og í fyrsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu en niðurstöðurnar voru kynntar í dag á árlegum samráðsfundi IDAHOT+ sem stendur yfir í Hörpu en Ísland er er gestgjafi ráðstefnunnar í ár.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á ráðstefnunni og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flutti opnunarávarp. Þá flutti Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumálaráðherra einnig ávarp á ráðstefnunni.

Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA-Europe) birta árlega Regnbogakort í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí. Kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í 49 ríkjum Evrópu. Réttindakort trans fólks í Evrópu (Trans Rights Map 2023) sýnir á sama hátt stöðu trans fólks.

Frá 2018 hefur Ísland farið upp um 13 sæti á Regnbogakortinu en 2018 var Ísland í 18. sæti. Nú er Ísland eins og áður sagði komið upp í fimmta sæti en í fyrsta sæti er Malta, þar á eftir kemur Belgía, þá Danmörk og Spánn.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir hinsegin fólk á Íslandi og fyrir samfélagið allt. Árangurinn sem náðst hefur í að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks á Íslandi hefur þó ekki komið af sjálfu sér. Stærsta einstaka breytingin í málaflokknum voru lögin um kynrænt sjálfræði 2019 sem komu til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðluðu að mikilvægum réttarbótum fyrir trans fólk með því að staðfesta rétt einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við kynvitund. Lögin leiddu einnig til mikilvægra réttarbóta fyrir intersex fólk þar sem lagt var bann við ónauðsynlegum aðgerðum á intersex börnum án samþykkis þeirra og líkamleg friðhelgi þeirra var þannig tryggð.”

Frá því að síðasta Regnbogakort var birt í maí 2022 hafa verið gerðar breytingar á lögum um bann við mismunun utan vinnumarkaðar og einnig voru gerðar breytingar á almennum hegningarlögum sem lúta að hatursorðræðu og hatursglæpum gegn hinsegin fólki.

Þá var samþykkt á Alþingi fyrsta aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks hér á landi þar sem stefnu stjórnvalda í málaflokknum er lýst. Framgangur verkefna aðgerðaráætlunarinnar er birtur á mælaborði sem nýlega hefur verið uppfært. Þar sést að góður gangur er á verkefnum og flest þeirra er annaðhvort hafin eða komin vel á veg.

  • Ísland upp í fimmta sæti á Regnbogakorti ILGA Europe og í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í  Evrópu - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ísland upp í fimmta sæti á Regnbogakorti ILGA Europe og í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í  Evrópu - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta