Raddir innflytjenda á Íslandi
Raddir innflytjenda voru til umræðu á norrænni ráðstefnu sem fram fór í Reykjavík í gær og haldin var í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Ráðstefnan tengist verkefninu „Raddir fólks með erlendan bakgrunn – inngilding í nám, starf og samfélag“ sem ætlað er að draga fram sjónarhorn ungra innflytjenda á Íslandi. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Norræna samstarfsnetið um fullorðinsfræðslu (NVL) stýra verkefninu í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið.
Ísland hefur á tiltölulega skömmum tíma breyst úr því að vera einsleitt samfélag í fjölmenningarlegt. Rúmlega 60.000 innflytjendur eru í landinu í dag, eða tæplega 17% þjóðarinnar.
Í aðdraganda ráðstefnunnar voru haldnir rýnifundir víða um land með hópum ungs fólks með erlendan bakgrunn (18-35 ára) til að draga fram þeirra sýn á aðgengi að námi, vinnumarkaði og öðrum sviðum samfélagsins. Einnig var leitað eftir sýn ýmissa stefnumótunar- og þjónustuaðila, auk fyrirtækja, varðandi það hvernig aðlaga mætti ferla í takt við þarfir innflytjenda.
Á ráðstefnunni sjálfri komu saman þau sem voru í markhópi verkefnisins, stefnumótendur og þjónustuaðilar til að vinna með niðurstöður rýnifundanna og móta áætlun um aðgerðir.
Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að tryggja markvisst að rödd innflytjenda heyrist. Hafa þurfi hugfast að innflytjendur eru ekki einsleitur hópur og við inngildingu í samfélagið þurfi að byggja á styrkleikum fólks og hæfni.
Í vinnuhópum kom meðal annars fram að gefist hafi vel að blanda saman tungumálanámi og vinnu. Þá var rætt um nauðsyn þess að finna betri leiðir til að ná til innflytjenda með upplýsingum um réttindi og skyldur þegar þeir kæmu fyrst til landsins.
Í framhaldi af viðburðinum í gær verður nú unnið enn frekar með niðurstöður rýnifundanna sem og umræðurnar á ráðstefnunni.
Verkefnið í heild sinni mun loks verða mikilvægur efniviður inn í heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks sem stýrt er úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.
Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.