Hoppa yfir valmynd
16. maí 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra átti fund með forseta framkvæmdastjórnar ESB

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti í dag fund með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Á fundinum ræddu þær stöðuna í viðræðum Íslands og ESB um aðlögun varðandi upptöku gerðar um breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug í EES-samninginn, en undanfarið hafa viðræður íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB um málið átt sér stað.

Staða EES-samningsins var einnig rædd á fundinum en á næsta ári verða 30 ár liðin frá því að samningurinn tók gildi. Greindi forsætisráðherra frá því að fyrirhugað væri að minnast  þeirra tímamóta. Þá ræddu þær leiðtogafund Evrópuráðsins sem verður settur nú síðdegis, stöðuna í Úkraínu og  málefni Íslands og ESB. Að fundinum loknum var boðað til blaðamannafundar þar sem forsætisráðherra og forseti framkvæmdastjórnar ESB svöruðu spurningum fjölmiðla.

Fyrr í dag átti forsætisráðherra tvíhliðafundi með Gitanas Nauseda, forseta Litháen, Daniel Risch, forsætisráðherra Liechtenstein og Alain Berset, forseta Sviss og fóru fundirnir  allir fram í Stjórnarráðshúsinu.

Á fundi forsætisráðherra með forseta Litháen, var m.a. rætt um fyrirhugaðan leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Vilníus í júlí. Þar verða málefni Úkraínu og áframhaldandi stuðningur í forgrunni.

EES-samningurinn og 30 ára afmæli hans á næsta ári voru meðal umræðuefna á fundi forsætisráðherra og forsætisráðherra Liechtenstein. Leiðtogafundur Evrópuráðsins var einnig til umræðu en Liechtenstein tekur við formennsku í ráðinu í nóvember nk. á eftir Lettlandi sem tekur við af Íslandi við lok leiðtogafundarins.

Forsætisráðherra og forseti Sviss, ræddu á fundi sínum samskipti ríkjanna og samstarf á vettvangi Fríverslunarsamtaka Evrópu. Auk umræðu um leiðtogafundinn og málefna Úkraínu var rætt um mögulegt samstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

  • Forsætisráðherra átti fund með forseta framkvæmdastjórnar ESB - mynd úr myndasafni númer 1
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Gitanas Nauseda, forseti Litháen. - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Daniel Risch, forsætisráðherra Liechtenstein. - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Alain Berset, forseti Sviss. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta