Hoppa yfir valmynd
16. maí 2023 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Leiðtogafundur Evrópuráðsins hafinn​

Ábyrgðarskylda vegna Úkraínu og grundvallargildi Evrópuráðsins eru meginumfjöllunarefni leiðtogafundar Evrópuráðsins sem hófst í Reykjavík í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á ríkan stuðning Evrópuráðsins og aðildarríkjanna við Úkraínu í ávarpi sem hún flutti við opnunarathöfnina.

Leiðtogar og aðrir fulltrúar allra aðildarríkja Evrópuráðsins komu einn af öðrum í Hörpu síðdegis þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, tóku á móti þeim. Að því búnu hófst opnunarathöfn fundarins í Eldborgarsal Hörpu, þar sem forsætisráðherra flutti opnunarávarp þar sem hún áréttaði meðal annars mikilvægi þess að Evrópuráðið haldi áfram að vera leiðandi stofnun um vernd mannréttinda og að mannréttindi nái til allra.

„Við stöndum frammi fyrir risavöxnum áskorunum sem allar geta haft áhrif á grundvallarmannréttindi, lýðræði og réttarríkið. Aukinn ójöfnuður, tæknibreytingar í veldisvexti og loftslagsváin eru allar sama marki brenndar hvað þetta varðar. Á sama tíma horfum við upp á útbreitt bakslag í réttindum kvenna, jafnrétti og réttindum hinsegin fólks. Lýðræðisleg stjórnskipan er ekki eitthvað sem hægt er að taka sem sjálfsögðum hlut heldur þarf samfélagsgerð sem hlúir að lýðræðinu sjálfu og við þurfum að endurnýjaðan kraft í mannréttindabaráttu fyrir okkur öll þar sem enginn er skilinn eftir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ávarpi sínu. 

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, flutti ávarp í gegnum fjarfundarbúnað við opnun leiðtogafundarins. Þá fluttu ávörp þau Emmanuel Macron, forseti Frakklands, Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í lok athafnarinnar lék Víkingur Heiðar Ólafsson Ave María eftir Sigvalda Kaldalóns.

Áður en athöfnin hófst bauð Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gestina velkomna til landsins í móttöku sem þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, efndu til.

„Þessi merki leiðtogafundur markar lok formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Við höfum lagt okkur fram um að rækja það hlutverk af þeirri trúmennsku og alúð sem það verðskuldar. Í formennskutíð Íslands hefur ríkt eindrægni um aðgerðir í þágu Úkraínu. Tjónaskráin vegna innrásar Rússlands sem samþykkt hefur verið að setja á fót er áþreifanlegt framlag ráðsins sem Ísland hefur verið í forystu um. Mikilvægast í mínum huga er að með því að taka að okkur verkefni sem þessi erum við að leggja af mörkum raunverulegt framlag sem stuðlað getur að bættum heimi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Nú standa yfir hringborðsumræður leiðtoganna um þær áskoranir og úrlausnarefni sem aðildarríkin standa frammi fyrir. Umræðurnar fara fram á fimm hringborðum og fjalla þær í meginatriðum um nýjar áskoranir á sviði mannréttinda, hvernig standa megi vörð um lýðræðið á óvissutímum og áframhaldandi stuðning aðildarríkjanna við Úkraínu, þar með talið hvernig tryggja megi að ábyrgðarskyldu fyrir Úkraínu sé framfylgt. Í kvöld koma leiðtogarnir svo saman til vinnukvöldverðar þar sem stuðningur við Úkraínu verður í brennidepli og friðartillögur Úkraínuforseta verða til umræðu. 

Í gær, í aðdraganda fundarins lögðu formenn og fulltrúar allra flokka á Alþingi fram þingsályktunartillögu sem kveður á um að Ísland færi úkraínsku þjóðinni færanlegt neyðarsjúkrahús að gjöf. Í tilkynningu formannanna kom fram að á Alþingi hafi ríkt þverpólitísk samstaða um stuðninginn og leggja formenn flokkanna áherslu á að undirstrika þá samstöðu með þessari gjöf.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins heldur áfram á morgun en þá stýrir forsætisráðherra almennum umræðum þar sem fulltrúar ríkja flytja sínar ræður. Jafnframt undirrita leiðtogarnir samkomulag um stofnun alþjóðlegrar tjónaskrár þar sem þau sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum innrásar Rússlands í Úkraínu fá það skráð með það að augnamiði að það verði síðar bætt. Fundinum lýkur með því að Ísland færir Lettlandi formennskuna í Evrópuráðinu með formlegum hætti.

  • Leiðtogafundur Evrópuráðsins hafinn​ - mynd úr myndasafni númer 1
  • Leiðtogafundur Evrópuráðsins hafinn​ - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta