Staða og tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar kortlögð
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem er falið það hlutverk að kortleggja stöðu og tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar hér á land og mögulegan ávinning af verkefnum sem framleitt geta slíkar einingar. Er skýrslu starfshópsins ætlað að innihalda tillögur að stefnumörkun stjórnvalda varðandi viðskipti með kolefniseiningar.
Hér á landi hefur um nokkurt skeið verið virkur valkvæður markaður með kolefniseiningar, þar sem fyrirtæki og stofnanir hafa getað keypt kolefniseiningar frá skógrækt og endurheimt votlendis, til að sýna fram á kolefnisjöfnun á starfsemi sinni. Til skamms tíma hafa engar vottaðar heimildir verið á markaði hérlendis og því hafa seljendur ekki getað sýnt fram á það með afgerandi hætti að kolefnisbinding eða samdráttur í losun hafi átt sér stað. Nokkrir aðilar hafa þó sett af stað vinnu við að afla vottunar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Til að stjórnvöld nái metnaðarfullum markmiðum sínum í loftslagsmálum þarf að velta við öllum steinum. Starfshópurinn sem nú hefur verið skipaður á að horfa til möguleika íslenskra fyrirtækja á markaði með kolefniseiningar sem mögulegir framleiðendur eininga, sem og á kosti og galla þess að íslensk stjórnvöld nýti slíka markaði til að uppfylla skuldbindingar sínar í loftslagsmálum.“
Á starfshópurinn m.a. að leggja mat á eftirfarandi þætti í íslensku samhengi:
- Kolefnismarkaði á grundvelli 6. gr. Parísarsamningsins
- Valkvæðan kolefnismarkað – þátttöku íslenskra fyrirtækja, framleiðslu, vottun o.fl.
- Kolefnismarkað og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum
- Verkefni á sviði föngunar og förgunar kolefnis og tengingu við alþjóðlega kolefnismarkaði
Starfshópinn skipa:
Jónas Friðrik Jónsson, formaður,
Helga Barðadóttir, sérfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu,
Salome Hallfreðsdóttir, sérfræðingur í matvælaráðuneytinu.
Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 1. febrúar 2024.