Hoppa yfir valmynd
17. maí 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundaði með kanslara Þýskalands, forseta Frakklands og forsætisráðherra Úkraínu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti fund með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, í Hörpu í morgun þar sem leiðtogafundur Evrópuráðsins fer fram. Í gærkvöldi fundaði forsætisráðherra með Emmanuel Macron, forseta Frakklands.

Á fundi Katrínar og Scholz var rætt um samskipti og samstarf Íslands og Þýskalands, m.a. varðandi verkefni um nýtingu jarðhita og grænar lausnir. Forsætisráðherra og kanslari Þýskalands ræddu einnig um gott samstarf ríkjanna á vettvangi alþjóðastofnana. Þá var leiðtogafundur Evrópuráðsins til umræðu og niðurstöður hans, sem og leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í Vilníus í sumar.

Fundur forsætisráðherra og Emmanuel Macron, forseta Frakklands, fór fram í Hörpu í gærkvöld en þetta er fyrsta heimsókn Macron til Íslands. Á fundinum ræddu þau m.a. tvíhliða samskipti ríkjanna, norðurslóðamál og öryggismál. Þá ræddu þau niðurstöður leiðtogafundarins og mikilvægi þess að gervigreind nýtist til hagsbóta fyrir alla.

Forsætisráðherra fundaði einnig með Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, í gær. Þau ræddu leiðtogafundinn en við undirbúning fundarins hefur verið haft náið samráð við stjórnvöld í Úkraínu, bæði með beinum samskiptum á fundum forsætisráðherra með forseta Úkraínu, Volodymyr Zelensky, og forsætisráðherra Úkraínu undanfarna mánuði og einnig á vettvangi Evrópuráðsins í Strassborg.

Ráðherrarnir ræddu um væntingar sínar til útkomu leiðtogafundarins sem felast m.a. í því að komið verði á fót alþjóðlegri skrá yfir það tjón sem stríðsrekstur Rússa hefur valdið og að markviss skref verði tekin til að kalla Rússa til ábyrgðar. Þá var aukinn stuðningur Íslands við Úkraínu ræddur en í vikunni kynntu formenn og fulltrúar allra flokka á Alþingi þá ákvörðun sína að leggja fram þingsályktunartillögu um að Ísland gefi úkraínsku þjóðinni færanlegt neyðarsjúkrahús.

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Emmanuel Macron, forseti Frakklands. - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta