Styrkjum úthlutað úr Grænlandssjóði fyrir árið 2023
Hlutverk Grænlandssjóðs er að efla samskipti Grænlands og Íslands. Sjóðurinn veitir styrki til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttaviðburða og annarra málefna á sviði menningar, menntunar og vísinda sem geta stuðlað að auknum samskiptum Grænlendinga og Íslendinga.
Hæsta styrkinn, 1.043.000 krónur, hljóta Christine Odderskov og Kommuneqarfik Sermersooq fyrir sýningu í safninu í Ittoqqortoormiit um menningarsamskipti Norðaustur Grænlands og Vestfjarða. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Byggðasafn Vestfjarða.
Anna Margrét Bjarnadóttir hlýtur 1.000.000 krónur fyrir grænlenska þýðingu á bókinni „Tómið eftir sjálfsvíg“ og skipulagningu á ráðstefnu í Nuuk.
Cecilie Marie Hardenberg hlýtur 750.000 króna styrk fyrir ferð 9. bekkjar A í Atuarfik Samuel Kleinschmidt Nuuk til Íslands.
Nuuk Shotokan Karate-Do og Lissi Bech Ottosen hljóta 626.000 krónur fyrir æfingaferð barna og ungmenna frá Nuuk til Karatefélagsins Þórshamars og Karatedeildar Breiðabliks.
Skákklúbburinn Nuuk Skak Klub hlýtur 416.000 króna styrk fyrir skákmóti í Nuuk til minningar um Hrafn Jökulsson.
Grænlandssjóður starfar samkvæmt lögum nr. 108/2016. Stjórn Grænlandssjóðs er skipuð Karítas Ríkharðsdóttur, formanni sjóðsstjórnar, Bryndísi Haraldsdóttur, fulltrúa Alþingis og Óttari Makuch Guðlaugssyni, fulltrúa utanríkisráðuneytis.