Hoppa yfir valmynd
22. maí 2023 Forsætisráðuneytið

Skýrsla um tækifæri og áhættur á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu

Starfshópur um tækifæri og áhættur á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni.

Það er niðurstaða starfshópsins að tækni sem byggist á dreifðri færsluskrá, þ.m.t. bálkakeðjum, gæti leitt til umtalsverðra framfara á sviði fjármálaþjónustu og opinberrar þjónustu. Tæknin búi yfir eiginleikum sem mögulega gætu lækkað kostnað, bætt skilvirkni, aukið öryggi í viðskiptum og opnað dyr fyrir fjölda einstaklinga, einkum í fátækum löndum sem hingað til hafi verið útilokaðir frá fjármálaþjónustu og þar með fullri þátttöku í samfélaginu.

Án viðeigandi regluverks sé hins vegar hætt við að áhættur sem fylgja nýrri tækni muni leiða til óstöðugleika og misnotkunar sem yfirgnæfi ávinninginn. Því telur starfshópurinn mikilvægt að hið nýja evrópska regluverk sem nú liggi fyrir verði innleitt eins hratt og mögulegt er.

Til lengri tíma litið kunni hins vegar að vera vænlegast að byggja nýtingu hinnar nýju tækni á sameiginlegum innviðum seðlabankarafeyris. Þannig sé hægt að stuðla samtímis að lágum kostnaði, mikilli skilvirkni, öryggi, virkri samkeppni og víðtækri þátttöku, í náinni samvinnu milli hins opinbera og einkageirans.

Skýrsla starfshóps um tækifæri og áhættur á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta