Þátttaka barna í innleiðingu barnasáttmálans
Yfir fjörutíu börn komu saman á þátttökuráðstefnu mennta- og barnamálaráðherra um Barnvænt Ísland og innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hérlendis. Markmiðið ráðstefnunnar var að ræða athugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðinguna og gefa börnum rödd í ákvörðunum er varða hag þeirra.
Ráðstefnan var haldin í Rósenborg á Akureyri, í samvinnu við Akureyrarbæ og grunnskóla á Norðurlandi. Þar var saman kominn 41 fulltrúi barna á aldrinum 13-15 ára frá tólf mismunandi skólum á svæðinu. Ungu ráðgjöfunum var falið að koma með sínar tillögur varðandi hvernig íslenska ríkið skyldi bregðast við lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar í þeim tilgangi að gera Ísland að enn betri stað fyrir öll börn.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði nýlega samning við alþjóðlegu samtökin Child Rights Connect. Samningurinn styður við réttindamiðaða nálgun í málefnum barna á Íslandi og innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Child Rights Connect eru félagasamtök sem starfa með Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Ráðstefnan hófst á fræðslu frá þátttökusérfræðingi þeirra þar sem rætt var við börnin um mannréttindindi og rétt þeirra til að láta skoðanir sínar í ljós. Útskýrð voru störf Barnaréttarnefndarinnar og fyrirkomulag vinnunar sem leiðir af sér lokaathugasemdirnar, sem hverju landi eru gefnar á 5 ára fresti, eftir úttekt á réttindum barna.
Að fræðslu lokinni var komið að þátttakendum að vinna sínar tillögur. Var þeim skipt upp á sex borð þar sem hvert borð fjallaði um sinn flokk athugasemda undir mismunandi yfirskriftum: Þátttaka barna; vernd gegn ofbeldi og barnvænt dómkerfi; fjölskyldan og fósturkerfið; börn í viðkvæmri stöðu; menntun og tómstundir; heilsa og umhverfið.
Í lok ráðstefnunnar kynnti hvert borð svo sínar tillögur sem teknar verða til greina við frekari úrvinnslu athugasemdanna innan stjórnarráðsins.
Ráðstefnan er liður í samstarfsverkefni ráðuneytisins og Child Rights Connect um leiðbeiningar fyrir önnur lönd varðandi hvernig hægt sé að tryggja og nýta þátttöku barna í úrvinnslu lokaathugasemda Barnaréttarnefndarinnar. Hún var einnig lokahnykkur í tveggja ára verkefni ráðuneytisins og Evrópuráðsins um þátttöku barna, CP4Europe, sem lýkur nú í júní.