Utanríkisráðherra í opinberri vinnuheimsókn í Sviss
Tvíhliða samstarf Íslands og Sviss á, m.a. á sviði mannréttinda, efnahagsmála og grænna lausna voru meðal umræðuefna á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Ignaccio Cassis utanríkisráðherra Sviss í Zürich dag. Utanríkisráðherra er þar stödd í opinberri vinnuheimsókn.
Ráðherrarnir ræddu stöðu heimsmála, ekki síst um mikilvægi áframhaldandi stuðnings við Úkraínu. Sviss gegnir nú í maí formennsku í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og dögunum lét Ísland af formennsku í Evrópuráðinu. Á fundi ráðherranna í dag kom skýrt fram að ríkin eru samherjar á flestum sviðum alþjóðamála, beita sér ákveðið fyrir virðingu fyrir alþjóðalögum og friðsamlegri lausn deilumála og deila gildum á sviði mannréttinda, mannúðarmála og sjálfbærar þróunar.
„Fundurinn í dag var kærkomið tækifæri til að undirstrika samstöðu og samstarf á milli Ísland og Sviss almennt, til dæmis á sviði mannréttinda. Fulltrúar okkar í stofnunum Sameinuðu þjóðanna vinna mikið saman í málefnastarfi sem hefur það að leiðarljósi að verja mannréttindi í heiminum. Einnig höfum við í áratugi átt náið samstarf um gerð fríverslunarsamninga innan Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA og erum samstíga um að verja og styðja við hið alþjóðlega viðskiptakerfi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.”
Á morgun tekur utanríkisráðherra þátt í viðburði á vegum Íslandsstofu sem hefur það að markmiði að vekja athygli á tækifærum á Íslandi almennt og sjálfbærum fjárfestingum sérstaklega. Einnig mun utanríkisráðherra heimsækja barnaspítala í Zürich þar sem vörur frá íslenska fyrirtækinu Kerecis eru notaðar til sárameðhöndlunar.