Stuðningur við eldsneytisflutninga úkraínska hersins
Til að styðja við varnarbaráttu Úkraínu gegn innrásarliði Rússlands hafa íslensk stjórnvöld fest kaup á tíu olíuflutningabílum fyrir úkraínska herinn. Tveir bílar voru afhentir í nýliðinni viku.
Olíuflutningar skipta miklu máli fyrir varnargetu og hreyfanleika úkraínska hersins andspænis rússnesku innrásaröflunum. Mikill hörgull er á olíubílum í Úkraínu sem flutt geta eldsneyti fyrir herinn og þarlend stjórnvöld hafa óskað eftir því að vinaþjóðir aðstoði við að útvega slíka bíla. Íslensk stjórnvöld hafa brugðist hratt við þessum óskum Úkraínu. Samningar hafa verið gerðir við evrópskan birgi á þessu sviði um kaup á tíu notuðum olíubílum. Voru tveir fyrstu bílarnir afhentir í síðustu viku en hinir á komandi vikum.
„Frá upphafi innrásarinnar höfum við lagt áherslu á að styðja stjórnvöld í Úkraínu í samræmi við óskir og þarf þeirra og getu okkar. Við útvegum ekki úkraínska hernum vopn eða önnur hergögn en við getum hins vegar lagt okkar af mörkum með því að leggja til olíuflutningabíla sem tilfinnanlegur skortur er á og verið fljót til þegar slík þörf skapast,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Heildarkostnaður við kaupin á bílunum, umsýslu þeirra og afhendingu nemur 400.000 evrum, jafnvirði um sextíu milljóna króna.