Mál nr. 133/2023 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 133/2023
Fimmtudaginn 25. maí 2023
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 3. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. september 2021 og var umsóknin samþykkt 29. september 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. mars 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar í ljósi þess að hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi sín.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. mars 2023. Með bréfi, dags. 29. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. apríl 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi tekur fram að hann hafi verið mikid veikur med Covid samkvæmt heimaprófi og hafi ekki mátt mæta á heilsugæsluna. Hann hafi ekki verið í standi til þess að boða forföll en hafi verið í sambandi við sinn lækni sem hafi staðfest veikindin. Kærandi hafi skilað læknisvottorði og sé meira en til í nýjan tíma á námskeið. Kæranda þyki ekki rétt að honum sé neitað um bætur í tvo mánuði og fari fram á að fá fulla greiðslu fyrir febrúar og mars 2023.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 4. september 2021. Með erindi, dags. 29. september 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 50%.
Þann 4. janúar 2023 hafi kærandi verið boðaður á námskeiðið Markviss atvinnuleit en námskeiðið hafi farið fram þann 11. janúar klukkan 13:00. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar á netfangið [email protected]. Kæranda hafi verið tjáð að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans yrðu stöðvaðar. Boðunin hafi verið send á uppgefið netfang kæranda, með smáskilaboðum í farsíma og með tilkynningu á ,,Mínum síðum“. Kærandi hafi hvorki mætt á umrætt námskeið né boðað forföll.
Með erindi, dags. 16. janúar 2023, hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt á umrætt námskeið. Áréttað hafi verið að hefði kærandi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að koma að skýringum en frekari skýringar hafi þó ekki borist Vinnumálastofnun. Með erindi, dags. 24. janúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi hvorki mætt né boðað forföll á umrætt námskeið.
Þann 24. febrúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist læknisvottorð, útgefið þann 2. febrúar 2023. Þar komi fram að kærandi hafi verið með öllu óvinnufær þann 11. janúar 2023. Í kjölfarið hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju. Með erindi, dags. 2. mars 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun tafarlaust um veikindi sín væri það hins vegar nú niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt á námskeiðið Markviss atvinnuleit þann 11. janúar 2023. Kærandi hafi veitt þær skýringar að hann hafi ekki mætt sökum veikinda. Meðal gagna í máli þessu sé læknisvottorð, útgefið 2. febrúar 2023, þar sem fram komi að kærandi hafi verið með öllu óvinnufær þann 11. janúar 2023.
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. janúar 2023, hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi ekki mætt á umrætt námskeið. Kæranda hafi síðar verið tilkynnt með erindi, dags. 2. mars 2023, að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju og að það væri niðurstaða stofnunarinnar að hann skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. í stað 1. mgr. 58. gr. laganna. Fyrir mistök hafi verið greint svo frá í ákvörðunarbréfi stofnunarinnar, dags. 2. mars 2023, að fyrri ákvörðun stofnunarinnar hefði verið staðfest. Þó hafi komið fram í bréfi stofnunarinnar að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. í stað 1. mgr. 58. gr. Með vísan til framangreinds hafi hin kærða ákvörðun verið afturkölluð. Því verði ákvörðun stofnunarinnar, dags. 2. mars 2023, um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laganna rökstudd.
Kærandi hafi verið beittur viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi sín án ástæðulausrar tafar. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé svohljóðandi:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé rík áhersla lögð á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Þannig sé meðal annars í 3. mgr. 9. gr. laganna kveðið á um að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Upplýsingaskylda atvinnuleitanda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknarferlis um atvinnuleysisbætur. Við upphaf umsóknar séu margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur kynnt atvinnuleitendum, þar á meðal um upplýsingaskyldu. Í lok umsóknarferlis staðfesti allir atvinnuleitendur að þeir hafi kynnt sér þau atriði.
Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum þeirra að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segi í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi sín fyrr en þann 24. janúar 2023, eða nærri einum og hálfum mánuði eftir að þau hafi hafist og ekki fyrr en stofnunin hafi leitað eftir skýringum á ástæðum þess að hann hafi ekki sinnt skyldu sinni til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði í vegum Vinnumálastofnunar. Slíkt uppfylli augljóslega ekki áskilnað 2. mgr. og 5. mgr. 14. gr. um að tilkynna beri veikindi án ástæðulausrar tafar.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lítur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:
„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segir meðal annars í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Jafnframt skuli hann skila inn læknisvottorði innan viku frá lokum veikindanna, óski Vinnumálastofnun eftir því.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ekki á boðað námskeið á vegum Vinnumálastofnunar vegna veikinda. Þá liggur fyrir að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um veikindin fyrr en eftir að veikindin voru yfirstaðin og ekki fyrr en stofnunin hafði leitað eftir skýringum á því hvers vegna hann hafi ekki mætt á boðað námskeið.
Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr., 2. og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti stofnuninni ekki strax um veikindi sín. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um viðurlög við slíku broti. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. mars 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
_________________________________
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir