Hoppa yfir valmynd
26. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þörf sé á öflugri ráðgjöf og leiðsögn um úrræði, lausnir og leiðir fyrir eldra fólk

Starfshópur um hagsmunafulltrúa eldra fólks sem skipaður var í fyrra vor hefur lokið störfum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, skipaði hópinn og í honum áttu sæti fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alzheimersamtakanna, Landssambands eldri borgara og heilbrigðisráðuneytisins auk fulltrúa félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Við umfjöllun starfshópsins um verkefnið kom í ljós þörf sé á öflugri ráðgjöf eða leiðsögn um úrræði, lausnir og leiðir fyrir eldra fólk fremur en formlegri réttinda- eða hagsmunagæslu eða umboðsmanni, líkt og þingsályktunartillögur um efnið hafa lagt til. Ýmis þjónusta og úrræði séu í boði en eldra fólk og aðstandendur þess þekki oft ekki til mögulegra lausna. Þá séu til staðar formlegar eftirlitsstofnanir sem taki við erindum þeirra sem telja að þjónustu sé ábótavant s.s. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Embætti landlæknis auk úrskurðarnefndar velferðarmála sem úrskurðar í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana.

Í skilabréfinu vekur starfshópurinn athygli á því að verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk hafi verið skipuð í júní 2022 með það að markmiði að taka þjónustu við eldra fólk til endurskoðunar í heild sinni og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára. Sú aðgerðaáætlun hefur nú verið samþykkt á Alþingi.

Þar sem ekki liggja fyrir formlegar greiningar á því hvar skórinn kreppir helst varðandi ráðgjöf og upplýsingar til eldra fólks leggur starfshópurinn til að vinnu við smíði frumvarps um hagsmunagæslu fyrir eldra fólk verði frestað. Þess í stað verði, í samræmi við aðgerðaáætlunina, ráðist í að setja á fót tilraunaverkefni til 2-3ja ára um sérstaka ráðgjafaþjónustu fyrir eldra fólk:

  • Komið verði á fót upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess. Aðgerðin er í samræmi við aðgerð B.2 í ofangreindri áætlun.
  • Komið verði upp einni upplýsingagátt fyrir allt landið með upplýsingum um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess. Þetta er í samræmi við aðgerð C.3 í aðgerðaáætluninni.

Starfshópurinn leggur til að samhliða ráðgjöfinni verði gögnum safnað um helstu atriðin sem eldra fólk þarf ráðgjöf og stuðning með. Á grunni þeirra upplýsinga verði lagt mat á framtíðarskipulag ráðgjafarþjónustu og hagsmunagæslu fyrir eldra fólk. Lögð verði áhersla á að auglýsa þjónustuna ásamt því að kortleggja og greina erindin sem berast með það fyrir augum að lagt verði mat á framtíðarskipulag hagsmunagæslu fyrir eldra fólk.

Ofangreind vinna við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk hefur staðið yfir í allan vetur, með víðtæku samráði við hagaðila, undir merkjunum Gott að eldast. Verkefnið var kynnt á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í gær.

Gott að eldast - aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023-2027.

Aðgerð B.2 í aðgerðaáætluninni.

Aðgerð C.3 í aðgerðaáætluninni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta