Funduðu með Justin Trudeau í Kanada
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Eliza Reid forsetafrú, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, héldu ásamt íslenskri sendinefnd í opinbera heimsókn til Kanada um helgina. Var þetta fyrsta ríkisheimsókn Íslands til Kanada í 23 ár.
Markmið heimsóknarinnar er að styrkja margþætt tengsl landanna sem fögnuðu 75 ára afmæli stjórnmálasambands á síðasta ári. Heimsóknin hófst með móttökuathöfn í Ottawa.
Mary Simon, landstjóri Kanada, og eiginmaður hennar, Whit Fraser, tóku á móti forseta Íslands, forsetafrú og ráðherra í Rideau Hall.
„Ísland og Kanada hafi tengst sterkum böndum frá því að fyrstu vesturfararnir héldu til Kanada fyrir um 150 árum og það er mikilvægt að rækta þau tengsl áfram, en samfélag Vestur-Íslendinga er stórt og kraftmikið sem mikill sómi er af. Löndin deila gildum frelsis, lýðræðis og mannréttinda sem er mikilvægt að standa vörð um. Það var gott að finna þann mikla hlýhug sem ríkir í garð Íslands hjá þessari góðu vinaþjóð okkar í vestri,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra um heimsóknina.
Áhugasamur um skapandi greinar
Sendinefnd Íslands er skipuð Lilju Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarmálaráðherra, Pétri Þ. Óskarssyni framkvæmdastjóra Íslandsstofu, Jóni Sigfússyni, stjórnarformanni Planet Youth og Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms. Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada, var einnig með í för.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands plantaði rauðeik við Rideau Hall nálægt tré sem frú Vigdís Finnbogadóttir plantaði á sama stað árið 1989. Að því loknu hélt sendinefndin til Parliament Hill þar sem forseti og ráðherra funduðu með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
„Forsætisráðherrann hefur sérstakan áhuga á skapandi greinum og hlutverki þeirra í efnahagslífi framtíðarinnar. Að sama skapi hefur hann lagt mikla áherslu á mikilvægi tungumálsins í inngildingu innflytjenda í Kanada,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.
Forseti og ráðherra funduðu með fulltrúum Heritage Canada og Canada Council of Arts um tvíhliða menningartengsl þjóðanna í Kanada. Fundurinn er hluti af opinberri heimsókn þar sem þau hittu meðal annars með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Meðal þess sem bar á góma var 150 ára afmæli fólksflutninga frá Íslandi til Kanada, Stephan G Stephansson sjóðurinn og Arctic Arts Summit sem haldinn verður á Akureyri 2024.
Menningar- og viðskiptaráðherra greindi jafnframt frá áherslum ríkisstjórnarinnar á málefni skapandi greina og þá stefnumótun sem átt hefði sér stað á sviði ólíkra listgreina undanfarið. Næst var haldið að National War Memorial í miðborg Ottawa þar sem forsetinn lagði blómsveig að minnismerkinu.