Ríkisstjórnin styrkir verkefni um menningarsamstarf við Úkraínu
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum sl. föstudag að veita 5 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til Háskóla Íslands vegna verkefnis um menningarsamstarf við Úkraínu. Þá hyggst utanríkisráðuneytið styrkja verkefnið um 4 milljónir króna.
Markmið verkefnisins er að auka þekkingu og skilning á Úkraínu í íslensku samfélagi, m.a. með því að skipuleggja viðburði fyrir almenning. Verkefnið var sett á laggirnar á síðasta ári og heyrir undir rannsóknarsetrið EDDU við Háskóla Íslands í samstarfi við Vigdísarstofnun og Alþjóðamálastofnun.
Sérstök áhersla hefur verið lögð á menningarlíf, sögu, fjölmiðla og stjórnmál. Einnig verður sérstaklega hugað að samfélagslegri þátttöku fólks frá Úkraínu á Íslandi og leitað leiða til að styrkja stöðu þeirra sem hér hafa sest að tímabundið eða til frambúðar vegna stríðsins.