Hoppa yfir valmynd
31. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Úkraína og Úganda efst á baugi Noregsheimsóknar

Frá fundi utanríkisráðherranna Anniken Huitfeldt og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur - myndUtanríkisráðuneyti Noregs

Áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu, samvinna Íslands og Noregs og nýsamþykkt lög gegn hinsegin fólki í Úganda voru á meðal umræðuefna á fundum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur með samstarfsráðherrum í Noregi í gær og í dag.

Þórdís Kolbrún heimsótti Noreg í aðdraganda óformlegs utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins sem hefst síðar í dag. Hún átti þar tvíhliða fundi með Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra, Anne Beathe Tvinnereim þróunarsamvinnuráðherra, Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra. Á morgun á hún fund með Jan Christian Vestre, ráðherra utanríkisviðskipta. Þeir málaflokkar sem heyra undir þessa fjóra ráðherra í Noregi heyra undir utanríkisráðherra Íslands.

„Það er afar mikilvægt að eiga í reglulegu og nánu samtali við Noreg sem er meðal okkar nánustu bandamanna á fjölda sviða í alþjóðlegu samstarfi. Það er því nauðsynlegt að bera saman bækur með reglulegu millibili eins og við höfum náð að gera á þessum fundum. Það er ákaflega dýrmætt fyrir Íslendinga að njóta trausts til að eiga djúpt samband við nánar vinaþjóðir og mikilvægt að Ísland leggi einnig sitt af mörkum í slíku samstarfi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Á fundunum með ráðherrum bar málefni Úkraínu hæst og hvernig innrásarstríð Rússlands hefur haft djúpstæð áhrif í fjölda málaflokka í alþjóðlegu samstarfi. Einnig var rætt hvernig Íslandi og Noregur gætu enn frekar dýpkað sitt samstarf á ýmsum sviðum, bæði tvíhliða og einnig á vettvangi fjölþjóðasamstarfs. Á fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Tvinnereim þróunarsamvinnuráðherra var meðal annars rætt um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í Úganda eftir að forseti landsins staðfesti grimmúðlega löggjöf sem beinist gegn hinsegin fólki.

„Þessar hörmulegu fréttir frá Úganda settu auðvitað sinn svip á fund okkar þróunarsamvinnuráðherranna enda er um að ræða samstarfsríki bæði Noregs og Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Það var mjög gagnlegt að heyra sjónarmið norska ráðherrans í þessum efnum og við ætlum að halda áfram að ráða saman ráðum okkar. Í mínum huga er skýrt að þróunarsamvinna er fyrst og fremst fyrir fólkið ekki stjórnvöld,“ segir Þórdís Kolbrún.

Til viðbótar við fundina með norsku ráðherrunum tók utanríkisráðherra þátt í viðburði á vegum norsk-íslenska viðskiptaráðsins þar sem fjallað var um netöryggismál. Lagði hún meðal annars áherslu á í erindi sínu hve mikilvægt væri að tryggja öryggi fjarskiptainnviða á og við Ísland. Jafnframt hélt Þórdís Kolbrún kynningu og svaraði spurningum sendiherra 38 ríkja með fyrirsvar gagnvart Íslandi en hafa aðsetur í Ósló. Ráðherra ræddi jafnframt við þau sem eru í forsvari fyrir samfélag Íslendinga í Noregi.

Í dag hittust þær Þórdís Kolbrún og Ine Eriksen Søreide, formaður utanríkis- og varnarmálanefndar norska Stórþingsins og fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, á hádegisverðarfundi þar sem horfur og áskoranir í alþjóðamálum voru til umræðu.

  • Þórdís Kolbrún og Anne Beathe Tvinnereim þróunarsamvinnuráðherra Noregs - mynd
  • Þórdís Kolbrún og Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra Noregs. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta