Utanríkisráðherra skipar í útflutnings- og markaðsráð
Utanríkisráðherra hefur skipað fulltrúa til setu í útflutnings- og markaðsráð. Samkvæmt lögum um Íslandsstofu skipar utanríkisráðherra 31 fulltrúa í ráðið til fjögurra ára í senn.
Auk fulltrúa utanríkisráðherra tilnefna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, ráðherra mennta- og menningarmála, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og samstarfshópur markaðsstofu landshlutanna fulltrúa í ráðið.
Árið 2018 samþykkti Alþingi ný lög um Íslandsstofu þar sem er meðal annars kveðið á um að útflutnings- og markaðsráð skuli starfrækt. Utanríkisráðherra er sjálfur formaður ráðsins, en auk hans skulu ráðherrar sem fara með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, ferðamál og málefni iðnaðar og nýsköpunar og mennta- og menningarmál, ásamt fulltrúum þingflokka utan ríkisstjórnar á hverjum tíma eiga sæti í ráðinu.
Hlutverk ráðsins er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning. Ráðið skal taka til umfjöllunar tillögur að verkefnum sem unnin eru í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda og tryggja að slík verkefni falli að markaðri langtímastefnu. Ráðið getur skipað starfshópa úr ráðinu um afmörkuð verkefni og skal Íslandsstofa vera þeim til ráðgjafar.
Hér má sjá lista yfir nýskipaða fulltrúa í útflutnings- og markaðsráði.