Hoppa yfir valmynd
1. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Herstjórnarmiðstöð JEF á Íslandi

Sameiginlega viðbragðssveitin (Joint Expeditionary Force, JEF) sem Bretar leiða ásamt Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Hollandi setur í æfingaskyni upp færanlega herstjórnarmiðstöð á öryggissvæðinu í Keflavík í júní.

Þetta er í fyrsta skipti sem viðbragðssveitin heldur æfingu á Íslandi en Ísland hóf þátttöku í samstarfinu í apríl 2021. Markmiðið með æfingunni er að gefa þátttökuríkjum tækifæri til að kynnast aðstæðum á Íslandi, setja upp færanlega herstjórnarmiðstöð, þróa viðbragðsáætlanir og æfa sviðsmyndir sem tengjast öryggisáskorunum á sviði fjölþáttaógna. Um 250 manns frá stjórnstöð JEF, þátttökuríkjum og öðrum vinaþjóðum taka þátt í æfingunni. Utanríkisráðuneytið og varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar halda utan um skipulag verkefnisins af hálfu Íslands.

„Við höfum markvisst verið að auka og þétta samstarf við okkar grannríki í öryggis og varnarmálum og er JEF samstarfið mjög mikilvægur hluti af því. Þannig tryggjum við í sameiningu skjótvirkt og sveigjanlegt viðbragð í hugsanlegu hættuástandi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. Samstarfinu er ætlað að tryggja skjót viðbrögð við hvers kyns aðstæðum og styðja við annað fjölþjóðasamstarf, svo sem á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þátttökuríkin eiga jafnframt reglubundið og virkt öryggispólitískt samráð.

  • Herstjórnarmiðstöð JEF á Íslandi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Herstjórnarmiðstöð JEF á Íslandi - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta