Leiðtogar Evrópuríkja funduðu í Moldóvu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti í dag leiðtogafund hins pólitíska bandalags Evrópuríkja (European Political Community, EPC) sem fram fór skammt frá Chisinau, höfuðborg Moldóvu. Fundinn sóttu leiðtogar 47 Evrópuríkja, þ. á m. Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu, auk leiðtoga Evrópusambandsins.
Á fundinum kom fram einarður stuðningur við Úkraínu vegna innrásarstríðs Rússlands og einnig við gestgjafaríkið, Moldóvu, sem hefur um árabil sætt hefur miklum þrýstingi frá Rússlandi. Á vettvangi EPC koma saman Evrópuríki sem eru bæði innan og utan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áskoranir.
Á fundinum var sjónum beint að þremur meginviðfangsefnum: öryggismálum, orkumálum og efnahagsuppbyggingu. Fram kom eindreginn vilji til að auka samvinnu á þessum sviðum, s.s. með því að efla netöryggi og viðnámsþrótt samfélaga gegn ógnum gegn lýðræði, auka orkuöryggi með því að hraða innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu og með því að styrkja grunnvirki sem er ekki síst í þágu þeirra ríkja sem eiga langt í land í efnahagsuppbyggingu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Á fundinum var áréttuð samstaða Evrópuþjóða með Úkraínu og mikilvægi þess að tryggja réttlátan frið í Evrópu. Staðreyndin er sú að óstöðugleiki í einu Evrópuríki ógnar stöðugleika í öðrum. Þess vegna er svo mikilvægt að Evrópa vinni saman að því að bæta hag allra ríkja, ekki síst þeirra sem eru hvað verst sett og hafa setið eftir í efnahagsþróun. Í þessu ljósi var mikilvægt að hittast í Moldóvu sem er í miklu návígi við stríðið í Úkraínu og er undir stöðugum þrýstingi frá Rússlandi.“
Í tengslum við EPC átti forsætisráðherra einnig fundi og samtöl við forsætisráðherra Moldóvu, forseta leiðtogaráðs ESB, forseta Kósovó, forsætisráðherra Belgíu og forsætisráðherra Liechtenstein og Noregs.