Hoppa yfir valmynd
1. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sóknarhugur fyrir skapandi greinar

Aðilar að stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina: Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir forseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, Hólmfríður Sveinsdóttir rektor við Háskólann á Hólum, Anna Hildur Hildibrandsdóttir formaður stjórnar RSG, Stefán Hrafn Jónsson forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, Hulda Stefánsdóttir sviðsforseti akademískrar þróunar hjá Listaháskóla Íslands og Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri.  - mynd

Markmið Rannsóknaseturs skapandi greina er að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina með hliðsjón af fjölþættum áhrifum þeirra á samfélagið. Stofnfundur setursins fór fram í síðustu viku en stofnaðilar eru Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum.

Í stjórn setursins eiga einnig sæti fulltrúar frá Samtökum skapandi greina og menningar- og viðskiptaráðuneyti. Formaður stjórnar setursins er Anna Hildur Hildibrandsdóttir fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst, skipuð að menningar- og viðskiptaráðherra.

„Skapandi greinar eru mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi og hlutdeild þeirra í verðmæta- og atvinnusköpun fer vaxandi, svo eftir er tekið. Við höfum að undanförnu unnið að stefnumótun fyrir listgreinarnar þar sem við leggjum meðal annars sérstaka áherslu á starfs- og stuðningsumhverfi greinanna og samfélagslegt mikilvægi þeirra – en það er líka brýnt að horfa á þróun og uppbyggingu hins skapandi hagkerfis í heild sinni. Ísland hefur alla burði til þess að verða miðstöð menningar og skapandi greina á alþjóðavísu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, „en til þess að undirbyggja þá sýn og aðgerðir þurfum við að efla samstarf, gagnaöflun og rannsóknir og í því verkefni verður Rannsóknasetur skapandi greina lykilaðili.“


Hlutverk nýs Rannsóknaseturs verður meðal annars að efla samráð háskóla, stjórnvalda, Hagstofu Íslands og atvinnulífs menningar og skapandi greina, sem styrkt getur áframhaldandi vöxt skapandi greina og að efla gagnaöflun og greiningu sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir og miðlun um málefni þeirra.

Áherslur og framtíðarsýn Rannsóknaseturs skapandi greina verður nánar kynnt á opnum fundi mánudaginn 12. júní nk. kl. 15 í húsakynnum CCP á Granda.

Hvað eru skapandi greinar?

Listir, sköpun og hugverk eru auðlindir sem endurnýjast og lúta eigin lögmálum en menning er það sem þær auðlindir gefa til samfélagsins hverju sinni. Skapandi greinar eru vaxandi drifkraftur í verðmætasköpun þjóðarbúsins og öflugra samfélagi. Fólk sem starfar í skapandi greinum hagnýtir menningu til verðmætasköpunar; hvort heldur efnahagslegrar eða samfélagslegrar. Til skapandi greina teljast m.a. bókmenntir, fjölmiðlun, hönnun og arkitektúr, kvikmynda og sjónvarpsþáttagerð, listnám, safnastarf og miðlun menningararfs, myndlist og starfsemi gallería, sviðslistir, tónlist, tölvuleikjagerð og hugbúnaðarþróun sem þeim tengist og starfsemi auglýsingastofa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta