Orkuöryggi, samfélagsleg þrautseigja og Úkraína rædd á ráðherrafundi Eystrasaltsráðsins
Málefni Úkraínu, samfélagsleg þrautseigja og aukið orkuöryggi á Eystrasaltssvæðinu voru ofarlega á baugi á fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins í Wismar, Þýskalandi í dag. Í sameiginlegri yfirlýsingu lýstu utanríkisráðherrarnir algerri samstöðu með Úkraínu og fordæmdu harðlega innrásarstríð Rússlands í Úkraínu. Þá er vísað til niðurstaðna leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík.
Rússlandi var meinuð þátttaka í allri starfsemi Eystrasaltsráðsins í byrjun mars 2022. Í kjölfarið, eða 17. maí 2022, tilkynnti Rússland svo um úrsögn sína úr ráðinu. “Það er mikilvægt að sýna Rússum glöggt fram á að jafnvel þótt þeir sitji ekki lengur við borðið þá höldum við ekki aðeins áfram okkar vinnu heldur notum við öll tækifæri til að styðja við Úkraínu og þeirra málstað,“ segir utanríkisráðherra.
Í ræðu sinni lagði Þórdís Kolbrún ríka áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar og svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda í álfunni. Þar hefði Eystrasaltsráðið áfram hlutverki að gegna. Þá lagði ráðherra áherslu á starf Eystrasaltsráðsins á sviði barnaverndar en Ísland hefur um árabil verið leiðandi á því sviði innan ráðsins og hefur barnahúsum að íslenskri fyrirmynd víða verið komið á fót í aðildarríkjum ráðsins.
„Töluvert var rætt um hættur sem steðja að lýðræðinu, til dæmis vegna dreifingar falsfrétta, á fundinum í dag. Áróðursvél Kremlarvaldsins er vel fjármögnuð og hefur víða verið notuð til þess að grafa undan trú á getu frjálsra samfélaga til þess að búa íbúum sínum gott samfélag. Þetta er þó algjörlega á skjön við raunveruleikann. Í frjálsum samfélögum eru vissulega mörg vandamál og þau eiga greiða leið upp á yfirborðið og inn í umræðuna. Sagan kennir okkur hins vegar að frjálsum samfélögum gengur vel að leysa úr stórum vandamálum, en í niðurbældum samfélögum er breitt yfir smáu misfellurnar og þar verða stór vandamál til. Við ræddum meðal annars mikilvægi þess að koma þessum kostum frjáls samfélags til skila í okkar eigin samfélögum og annars staðar í heiminum,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherranna er einnig lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að auka orkuöryggi á Eystrasaltssvæðinu með aukinni nýtingu vindorku en vindorka hefur verið eitt helsta áhersluatriðið í formennsku Þýskalands í ráðinu undanfarið ár. Þess má geta að Finnland tók við formennskukeflinu af Þjóðverjum í lok fundarins.
Eystrasaltsráðið var stofnað 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltssríkin, Pólland, Þýskaland, auk Evrópusambandsins. Ráðið hefur aðsetur í Stokkhólmi og innan þess fer fram margþætt efnislegt og faglegt samstarf aðildarríkjanna um málefni á borð við barnavernd, málefni ungmenna, aðgerðir gegn mansali, almannavarnir og stjórnmálalegt samstarf.