Samþætt þjónusta í heimahúsum: Auglýst eftir þróunarverkefnum
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýsa eftir samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir sem vilja vinna að þróunarverkefnum um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Með samþættingu er átt við að rekstur þjónustunnar sé á einni hendi, jafnt mannafla- sem fjármálastjórn.
Tímarnir breytast og mennirnir með. Aldurssamsetning þjóðarinnar líka. Fólk lifir lengur en áður og er virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr. Gott að eldast er yfirskrift aðgerðaáætlunar stjórnvalda í málefnum eldra fólks. Liður í henni er að þróa þjónustu við borgarana í takt við breyttar þarfir og nýja tíma. Samstarfið sem hér um ræðir snýst einmitt um það.
Viltu taka þátt?
Skilgreind verða þróunarverkefni til fjögurra ára á grunni aðgerðaáætlunarinnar Gott að eldast sem Alþingi samþykkti þann 10. maí sl. Meginþungi aðgerða í áætluninni felst í þróunarverkefnum þar sem samþætting félags- og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum, nýsköpun og prófanir munu nýtast sem grundvöllur að ákvörðunum um framtíðarskipulag þjónustu við eldra fólk.
Skilyrði fyrir þátttöku er að heilbrigðisstofnun sem rekur heimahjúkrun og sveitarfélög (aðilar) sem reka stuðningsþjónustu séu sammála um að einn aðili reki samþætta heimaþjónustu á tilteknu svæði; sveitarfélag, heilbrigðisstofnun eða að þau feli í sameiningu þriðja aðila rekstur þjónustunnar.
Valin verða sex svæði til þátttöku. Markmið verkefnanna er að leiða í ljós kosti og galla þess að samþætta rekstur heimaþjónustu.
Samstarfsaðilum verður veittur skipulagður stuðningur og ráðgjöf við innleiðingu þróunarverkefnanna og eftirfylgni, auk mats á árangri.
Umsóknarfrestur er til 1. september 2023 og sótt er um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.
Frekari upplýsingar veitir Berglind Magnúsdóttir, verkefnastjóri Gott að eldast, [email protected].
- Sjá einnig gottadeldast.is