Unnið verði að rannsóknum og dýpkun á Grynnslunum við Hornafjarðarós
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur falið Vegagerðinni að hefja aðgerðir við dýpkun innsiglingarleiðar að Höfn í Hornafirði um Grynnslin utan við Hornafjarðarós og tryggja þannig áfram rekstrarhæfi hafnarinnar. Aðgerðir verða unnar í samstarfi við sveitarfélagið og Hornafjarðarhöfn. Málið var kynnt á ríkisstjórnarfundi fyrr í vikunni.
Danska ráðgjafafyrirtækið DHI hefur unnið að rannsóknum í innsiglingunni á þessum slóðum, þ.á m. dýptarmælingum sem staðfesta að aðstæður eru erfiðar vegna sandburðar. Markmiðið er að kortleggja enn betur strauma og leita hagkvæmustu leiða til viðhalda æskilegu dýpi í innsiglingunni til framtíðar.
Niðurstöður rannsókna DHI benda til þess að siglingarennan sem dýpka þarf í gegnum Grynnslin fyllist nokkuð hratt af sandi í óveðrum. Viðvarandi dýpkun er því mikilvæg svo hægt verði að nýta þau tækifæri sem gefast til þess að dýpka og viðhalda æskilegu dýpi.
Meðal aðgerða er að hafa dýpkunarskip til staðar á Höfn næsta vetur sem nýta muni öll tækifæri sem gefast til að dýpka siglingarennuna. Vegagerðin mun svo í samráði við heimafólk nýta þá reynslu til að móta langtímaaðgerðir til að tryggja rekstrarhæfi hafnarinnar á Höfn. Samhliða verði áfram unnið að rannsóknum á náttúrulegum aðstæðum í Grynnslunum.