Hoppa yfir valmynd
13. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra á fundi aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í New York

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni ÖBÍ réttindasamtaka, Unni Helgu Óttarsdóttur, formanni Landssamtakanna Þroskahjálpar, og fleirum úr íslensku sendinefndinni. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, situr nú aðildarríkjafund Sameinuðu þjóðanna um stöðu málefna fatlaðs fólks, COSP-16, sem fram fer í New York. Fundurinn var settur í morgun og flutti Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, meðal annars ávarp.

Aðildarríkjafundurinn er haldinn árlega í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Í ár er kastljósinu sérstaklega beint að árangri og áskorunum ríkja við að samræma stefnu sínar og áætlanir við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Síðar í dag mun Guðmundur Ingi ávarpa aðildarríkjafundinn fyrir hönd Íslands. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur ráðherra sækir aðildarríkjafund samningsins. Ráðherra flytur einnig ávarp fyrir hönd ríkjahóps, 66 ríkja, um kyn- og frjósemisréttindi fatlaðs fólks. Þá stendur Ísland fyrir norrænum hliðarviðburði í dag í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina. Tilefnið er áhersla Íslands á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni á stafrænar lausnir fyrir fatlað fólk. Yfirskrift viðburðarins er „Co-creating digital solutions for persons with disabilities – Policies and strategies for tomorrow´s digital challenges“. Viðburðinum verður streymt í gegnum UN Web TV og hefst útsendingin kl. 17:15 að íslenskum tíma.

Aðildarríkjafundurinn stendur til fimmtudagsins 15. júní. Samhliða fundarsetunni mun ráðherra eiga tvíhliða fundi, taka þátt í hringborðsumræðum og margvíslegri dagskrá. Í gær átti Guðmundur Ingi meðal annars tvíhliða fund með Vladimir Cuk, framkvæmdastjóra International Disability Alliance.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta