Hoppa yfir valmynd
13. júní 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vindmyllur á hafi geta orðið raunhæfur liður í orkuskiptum Íslands til lengri tíma litið

Vindmyllur - myndJohannes Jansson/norden.org

Gera þarf nauðsynlegar endurbætur á lögum til að eyða óvissu um hvernig staðið verður að leyfisveitingum, rannsóknum, skipulagi og eftirliti vegna nýtingar vindorku á hafi. Eins þarf að taka afstöðu til þess hver rannsakar og hver greiðir kostnað af rannsóknunum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps um vindorku á hafi, sem telur botnfastar vindmyllur geta orðið raunhæfan valkostur fyrir Ísland en þó ekki fyrr en eftir 2030. Lengra sé í að fljótandi vindmyllur verði hagkvæmur kostur. Slík orkuframleiðsla er því ekki líkleg til að hafa áhrif á þau markmið sem Ísland hefur sett sér í loftslagsmálum og sem þurfa að nást fyrir lok árs 2030.

Kveðið er á um það í stjórnarsáttmála að stefna verði mörkuð um vindorkugarða á hafi og skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í ágúst í fyrra  starfshóp um vindorku á hafi í lögsögu Íslands.

Starfshópnum, sem nú hefur skilað ráðherra skýrslu sinni, var falið að taka m.a. saman upplýsingar um fýsileika orkuvinnslu á hafi við Ísland, gróft mat á mögulegri afl- og orkuframleiðslugetu, sem og hagkvæmni orkuframleiðslu á hafi og mögulega þróun hennar.

Starfshópinn skipuðu: Gestur Pétursson, sem var formaður hópsins, Sunna Björk Ragnarsdóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands, Kristján Geirsson Orkustofnun, Steinunn Hauksdóttir ÍSOR, Sigrún Karlsdóttir, Veðurstofu Íslands og Erla Sigríður Gestsdóttir, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Er þetta í fyrsta skipti sem sérfræðingar á ýmsum þverfaglegum sviðum leggja frumkvöðlavinnu við að taka saman gögn og upplýsingar fyrir heildræna greiningu á gögnum um málefni orkuvinnslu á hafi.

Geti orðið liður í orkuskiptum

Ætlað framlag vegna vindorkugarðs á hafi er á bilinu 1 til 2 TWst á ári fyrir hverja 100 til 200 ferkílómetra af haffleti, að því er fram kemur í skýrslunni, eða sem nemur 10 til 20 TWst á ári fyrir hverja 1.000 til 2.000 ferkílómetra. Skýrsluhöfundar telja ekki óvarlegt að áætla að hægt verði að finna um 500 til 2.000 ferkílómetra af haffleti í landgrunni Íslands fyrir botnfastar vindmyllur. Botnfastar vindmyllur geti þannig orðið raunhæfur liður í orkuskiptum út frá hagkvæmnisjónarmiðum fyrir atvinnulíf og almenning en þó ekki fyrr en eftir 2030.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030 og að kolefnishlutleysi verði náð fyrir 2040. Skýrslan sýnir að vindorka á hafi mun ekki nýtast okkur við að ná samdrætti í losun fyrir þau markmið sem við höfum sett okkur 2030. Nýir og fjölbreyttari orkukostir eru engu að síður  mikilvægur liður í að þeirri orkuþörf verði mætt og skoða þarf vandlega hvort og þá hvernig vindorka á hafi geti orðið liður í þeirri orkuskiptaáætlun sem stjórnvöld þurfa að setja fram á næstu misserum og telja inn í markmið okkar síðar. Hins vegar er ljóst að það er mikið verk óunnið varðandi lagaumgjörð leyfisveitinga, skipulag og eftirlit og rannsóknir vegna nýtingar vindorku á hafi.“

Hefja þarf undirbúningsvinnu

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að framlag vindorku á hafi til raforkuframleiðslu við Íslandsstrendur sé háð ýmsum óvissuþáttum sem m.a. lúti að tækni, hagkvæmni, umgjörð laga, áhrifum á náttúru og fiskveiðar, sem og ógnum er stafa af náttúruvá. Nýtingu vindorku á hafi verði enn fremur að hugsa til lengri tíma, en að mati starfshópsins er ekki hægt að reikna með raforkuframleiðslu vindorkugarða á hafi sem lið aðgerðum til orkuskipta fyrr en í fyrsta lagi á árunum 2031 til 2035.

Fýsilegustu svæði til hagnýtingar vegna vindorkugarða á hafi er að mati starfshópsins að finna á svæði fyrir austan land, frá Stokksnesgrunni að Húnaflóa fyrir norðan land, og á svæði fyrir vestan land, frá Eldeyjarbanka að Breiðafirði. Alla valkosti við orkuöflun á hafi þarf að vega með hliðsjón af áhrifum á dýralíf, gróður, vistkerfi, sýnileika, skipaleiðir og nýtingu fiskistofna við Ísland að því er segir í skýrslunni. Þörf sé því á frekari rannsóknum svo forgangsraða megi svæðum til uppbyggingar vindorkugarða á hafi.

Þá benda skýrsluhöfundar á að engin ákvæði séu í lögum varðandi leyfisveitingar og/eða eftirlit með leit og rannsóknum í tengslum við vindorkugarða á hafi og gera þurfi nauðsynlegar endurbætur á lögum til að eyða þeirri óvissu. Einnig þurfi að vinna heildrænt yfirlit yfir möguleika til framleiðslu raforku frá vindorkugörðum á hafi, áður en stjórnvöld geti mótað sína stefnu um nýtingu vinds á hafi sem liðs í uppfærðri orkuskiptaáætlun. Eins þurfi að taka afstöðu til þess hver rannsakar og hver greiðir kostnað af rannsóknunum, þ.e. hvort hann falli á leyfishafa eða hvort beita eigi aðferðafræði Rammaáætlunar, en samkvæmt henni leggur verkefnisstjórn fram tillögur til samþykktar á Alþingi.

Vindorka á hafi - skýrsla starfshóps

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta