Hoppa yfir valmynd
14. júní 2023 Dómsmálaráðuneytið

Reglugerðir á sviði alþjóðlegrar verndar efldar

Dómsmálaráðherra hefur undirritað tvær nýjar reglugerðir og sent til birtingar í Stjórnartíðindum er varða málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd. Hinar nýju reglugerðir snúa að fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför útlendinga og skilgreiningu á hugtakinu „sérstök tengsl“ útlendings við landið.

Skilgreining á hugtakinu „sérstök tengsl“ við Ísland

Í lögum um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða að sérstakar aðstæður mæli með því skuli taka umsóknina til efnismeðferðar. Með hinni nýju reglugerð er hugtakið „sérstök tengsl“ skilgreint með ítarlegri hætti en gildandi ákvæði 32. gr. b reglugerðarinnar gerir.

Þannig er kveðið á um að tengsl sem umsækjandi myndar á Íslandi eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd teljist ekki til sérstakra tengsla. Þá er skilgreint nánar hvers konar fjölskyldutengsl teljast til sérstakra tengsla og er þar m.a. vikið að því að tengsl við aðstandanda, sem er hér í ólögmætri dvöl, teljast ekki til sérstakra tengsla. Þá skuli sjónarmið vegna fjölskyldutengsla helst koma til skoðunar í þeim tilvikum þar sem umönnunarsjónarmið eru fyrir hendi og hvort umræddir einstaklingar hafi deilt eða alist upp á sama heimili.

Ný reglugerð um ferða- og enduraðlögunarstyrki til útlendinga

Yfirvöld hafa um árabil greitt fyrir heimför með fjárhagsaðstoð til þess að styðja við sjálfviljuga heimför þeirra útlendinga sem fengið hafa synjun á umsókn um alþjóðlega vernd. Styrkirnir eru mikilvægt úrræði fyrir útlendinga í slíkri stöðu og geta nýst í húsaleigu, nám, atvinnu eða önnur verkefni við heimkomu. Ný reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför skapar aukinn fjárhagslegan hvata fyrir útlendinga til að hlíta endanlegri niðurstöðu stjórnvalda um að yfirgefa landið, enda telst viðkomandi vera hér í ólöglegri dvöl. Reglugerðinni er því ætlað að stuðla að aukinni samvinnu milli stjórnvalda og þeirra útlendinga sem ber að yfirgefa landið. Þannig muni flutningum í fylgd lögreglu fækka og þeim fjölga sem kjósa sjálfviljuga heimför. Gert er ráð fyrir að slíkt leiði af sér töluverðan sparnað fyrir ríkissjóð enda eru flutningar í fylgd lögreglu kostnaðarsamir.

Fleiri reglugerðir væntanlegar

Fleiri reglugerðir á sviði alþjóðlegrar verndar eru í bígerð í ráðuneytinu sem ætlað er að styrkja enn frekar framkvæmd stjórnvalda í málaflokknum. Þá er m.a. um að ræða reglugerðarbreytingar sem eiga sér stoð í þeim breytingum sem gerðar voru á útlendingalögum nr. 80/2016 í mars á þessu ári.

 

Í viðhengi má finna afrit af reglugerðunum.

Breyting á reglugerð um útlendinga (sérstök tengsl)

Reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta